Skip to main content
11. janúar 2018

Gervitungl til sýnis á Háskólatorgi

Þann 15. janúar næstkomandi gefst landsmönnum einstakt tækifæri til að skoða gervitungl á Háskólatorgi en um er að ræða hátæknitungl sem notað er við að mynda jörðina úr mikilli hæð. Með myndunum verða til svokölluð fjarkönnunargögn sem byggjast á flóknum tölvumyndum sem nýtast t.d. við mjög margbrotna landfræðilega greiningu, margs konar kortlagningu, greiningu umferðar á sjó og landi og einnig við greiningu ýmissa efnasambanda í lofthjúpi og á yfirborði jarðar. Gervitungl eins og það sem sýnt verður á Háskólatorgi er einungis 90 mínútur að fara umhverfis jörðina en í dag er 291 sambærilegt tungl á braut um jörð og af þeim taka 189 daglega fjarkönnunarmyndir á ferðalagi sínu.  

Jón Atli Benediksson, rektor Háskóla Íslands og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, er einn þekktasti vísindamaður heims á sviði fjarkönnunar en á undanförnum árum hafa verið þróaðar nýjar og betri aðferðir til að vinna úr fjarkönnunargögnum undir hans stjórn. Í rannsóknahópi Jóns Atla hafa verið fjölmargir doktorsnemar sem hafa brautskráðst frá Háskólanum og nokkrir þeirra hafa starfað hjá Bandarísku geimferðarstofnuninni, NASA. Háskóli Íslands er enda í hópi fremstu vísindastofnana heims á sviði fjarkönnunar, eða í 10. sæti samkvæmt nýjum lista Shanghai Rankings sem er árviss listi yfir bestu háskóla heims. 

Margir ætla að gervitungl séu gríðarstór, sem þau hafa auðvitað verið og sum um tíu tonn að þyngd, en með aukinni þróun og ekki síst með hagnýtingu  nanótækni hafa þau minnkað hratt. Gervitunglið á Háskólatorgi, sem ber heitið Planet Labs, er mjög smátt miðað við „hefðbundin“ gervitungl eða aðeins um fjögur kílógrömm að þyngd, 30 sentímetrar á lengd og 10 sentímetrar á breidd. Tunglum sem þessum er skotið á sporbaug með hefðbundnum eldflaugum og þeim komið til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar og þaðan sett á sporbaug í 500 kílómetra hæð yfir jörðu. Þau fljúga síðan milli póla eða í norður-suður stefnu yfir jörðinni sem snýst frá austri til vesturs þannig að tunglin skanna jörðina alla einu sinni á sólarhring. 

Það er íslenska fyrirtækið ÍAV sem hefur milligöngu um flutning á tunglinu til landsins en ÍAV þjónustar jarðstöð bandaríska fyrirtækisins Planet Labs sem rekur þessi tungl. Jarðstöðin er á Ásbrú í Reykjanesbæ.  Á einum sólarhring senda gervitunglin sem Planet Labs rekur fimm til sex terabæt af gögnum og jarðstöðin á Ásbrú tekur við hartnær helmingnum af þeim myndum. Þess má geta að ÍAV sá um byggingu á Háskólatorgi þar sem gervitunglið verður sýnt. 

Fjarkönnunargögn verða æ mikilvægari
Vegna aukinnar notkunar á gervitunglum eins og því sem sýnt verður á Háskólatorgi, og bættrar tækni ásamt meiri rófs- og rúmupplausn myndanna sem þau taka, hafa fjarkönnunargögn orðið æ umfangsmeiri og flóknari á síðustu árum. Að sama skapi hafa þau orðið mikilvægari og nýst á fleiri sviðum en áður. Jón Atli Benediktsson segir að fjarkönnunarrannsóknir séu afar mikilvægar, ekki síst þegar greina þurfi mikilvægar breytingar sem verða á umhverfinu.

„Hér á landi hefur fjarkönnun verið mikið notuð, t.d. við kortlagningu, eftirlit á gróðri og gróðurbreytingum, landnotkun og jöklabreytingum, útbreiðslu hrauna í eldgosum eins og í Holuhrauni og einnig við að fylgjast með hita- og landhæðarbreytingum jarðhitasvæða og þenslu virkra eldfjalla auk eftirlits með hafís og hitastigi sjávar,“ segir Jón Atli.

„Með nýjum gögnum og úrvinnsluaðferðum kemur notkun fjarkönnunar til með að aukast til muna, ekki síst við hvers kyns umhverfis- og auðlindarannsóknir á sjó og landi.  Í framtíðinni gæti reglubundin fjarkönnun orðið lykilþáttur í að vakta fiskimiðin sem þjóðin byggir afkomu sína að miklu leyti á. Þá gagnast fjarkönnun einnig við ýmiss konar löggæslu en mörg ríki hafa t.d. sívaxandi áhyggjur af olíumengun í sjó og fjarkönnunartækni hentar einkar vel til að fylgjast með og kortleggja ólöglega losun olíu og margra annarra spilliefna í sjó,“ segir háskólarektor. 

Myndir úr gervitunglum voru mikið notaðar í gosinu í Holuhrauni, m.a. við að fylgjast með útbreiðslu hrauns en ekki síður á eitruðum gastegundum sem ógnað gátu heilsu manna og dýra. Með því að nota mismunandi bandvíddir við myndatöku úr gervitunglum er unnt að taka myndir af eldgosi þótt alskýjað sé yfir eldstöðinni. 
  
Nýtist vel við náttúruvöktun
Ingibjörg Jónsdóttir, dósent í landfræði við Háskóla Íslands, vann við greiningar á útbreiðslu hrauns í Holuhraunsgosinu, en hún hefur einnig sérhæft sig í túlkun á hreyfingu hafíss. „Bakgrunninn að mínum rannsóknum er að hluta að finna í hafísrannsóknum," segir Ingibjörg. „Þar skiptir mestu að greina gervitunglamyndir með hraði í umhverfi sem er síbreytilegt vegna vinda, hafstrauma, innri afla og eiginleika íssins.“

Ingibjörg segir það grundvallaratriði að koma áreiðanlegum upplýsingum um hafís til sjófarenda og rannsakenda á vettvangi til að tryggja öryggi. „Samþætting rauntímaeftirlits og rannsókna er áhrifamikil leið til að öðlast betri skilning á ferlum náttúrunnar.“

Ingibjörgu finnst viðfangsefni sitt áhugavert sökum þess að það geti komið að notum á svo mörgum sviðum jarðvísinda, ekki síst í tengslum við rannsóknir á náttúruvá og umhverfisbreytingum. „Fjarkönnun hentar þannig vel til að fá samtímayfirlit yfir stór landsvæði, t.d. með mælingum á geislun sem mannsaugað greinir ekki.“

Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands hefur undanfarin ár unnið að frekari kvörðun ýmissa fjarkönnunargagna til að auðveldara sé að meta fljótt eðli og umfang náttúruhamfara, hugsanlegar afleiðingar og viðbrögð. 

Ingibjörg segir að tækninni í fjarkönnun fleygi hratt fram með nákvæmari gervitunglagögnum og öflugri myndvinnslubúnaði og landupplýsingakerfum. Á sama tíma og gögnin verða fjölbreyttari reynir meira á vísindamenn að lesa úr þeim og túlka. „Hópurinn sem sinnir þessu hér innan Jarðvísindastofnunar HÍ hefur um nokkurra ára skeið unnið með Almannavörnum, ýmsum stofnunum og sveitarfélögum á þessu sviði og komið viðeigandi upplýsingum á framfæri við almenning og aðra vísindamenn. Allt miðast þetta við að átta sig betur á eðli náttúrunnar og að bæta viðbrögð við mögulegum atburðum í náttúrunni.“

Öllum er velkomið að koma á Háskólatorg að skoða gervitunglið dagana 15. til 18. janúar.  

Hér má sjá þegar gervitungli eins og því sem er Háskólatorgi er skotið út frá alþjóðlegu geimstöðinni og sent á braut um jörð.

Facebook-viðburður vegna sýningarinnar.
 

Gervitungl
Jón Atli Benediktsson
Ingibjörg Jónsdóttir