Skip to main content
22. desember 2021

Frá BS-ritgerð í búðir

Frá BS-ritgerð í búðir - á vefsíðu Háskóla Íslands

Margrét Hrund Arnarsdóttir brautskráðist með BS-gráðu frá Viðskiptafræðideild sumarið 2020. Lokaverkefni hennar var viðskiptaáætlun fyrir Fjölskyldubúið ehf. og var unnið undir leiðsögn Dr. Ástu Dísar Óladóttur dósents í Viðskiptafræðideild. Fjölskyldubúið ehf. er kúabú staðsett í Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Viðskiptaáætlunin sneri að því hvort arðbært væri að hefja rekstur á sjálfsafgreiðslustöðvum sem selja beint frá býli gerilsneydda, ófitusprengda mjólk. Við stöðvarnar geta viðskiptavinir einnig lesið sig til um Fjölskyldubúið og rekstur og umfang þess. Með þessu myndi Fjölskyldubúið ehf. færa vörur til neytenda sem eru upprunamerktar og rekjanlegar beint í Gunnbjarnarholt.

Nú hefur fyrsta sjálfsafgreiðslustöðin litið dagsins ljós í Krónunni í Lindum og vakið mikinn áhuga meðal viðskiptavina. Lesa má fréttir um opnun fyrstu stöðvarinnar á vef Morgunblaðsins, Viðskiptablaðsins og Bændablaðsins.

Kynningarbás Hreppamjólkur í Krónunni í Lindum þar sem fyrsta sjálfsafgreiðslustöð fyrirtækisins hefur verið opnuð.

En hvernig fór þessi hugmynd af stað?

„Pabbi, Arnar Bjarni Eiríksson, hefur sótt sér mikla þekkingu á landbúnaði erlendis og hafði séð svona búnað úti og hafði því legið með þessa hugmynd í nokkur ár, sem eru orðin um 8 ár í dag. Hann náði að sannfæra mig um að skrifa lokaritgerðina mína um þetta til að athuga hvort að þetta væri hugmynd sem hægt væri að taka lengra. Ég skrifaði svo lokaritgerðina mína vorið 2020 og upp úr því fórum við að vinna þetta hægt. Í apríl á þessu ári fór svo boltinn að rúlla og við fórum í það að velja sjálfsafgreiðslubúnaðinn og vinnslubúnaðinn. Covid setti þó strik í reikninginn með þetta eins og annað og því gátum við ekki farið út að skoða búnaðinn heldur þurftum við að velja allan búnað á netinu. Það var ákveðin áhætta enda vill maður skoða svona dýran búnað með eigin augum og fá tilfinningu fyrir honum. Við vonum hins vegar að við höfum náð að velja rétt, og erum loksins að læra á þetta allt saman. 

Fyrst ætluðum við að markaðssetja mjólkina í söluskúr rétt við sveitabæinn en þar sem að húsnæðið undir söluna kom ekki í tíma og lítið um ferðafólk á þessum árstíma fórum við í samstarf við Krónuna. Þau sýndu þessu verkefni mikinn áhuga og var því ákveðið að hefja formlegt samstarf. Viðskiptaáætlunin mín hefur því tekið miklum breytingum en byggist þó alltaf á sömu grunnhugmynd og flýtti helling fyrir í umsóknarferlinu.

Núna er þetta verkefni í tilraunafasa og fer vel af stað, viðskiptavinir eru ánægðir með þessa nýjung og því vona ég bara að það haldi áfram til þess að við getum stækkað og dafnað enn frekar. Gaman að segja líka frá því að við hlutum nýverið styrk frá Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka sem gaf okkur ákveðna staðfestingu á því að við værum að stefna í rétta átt. Verkefnið hefur vakið mun meiri athygli fjölmiðla heldur en við áttum von á og hafa viðbrögð á samfélagsmiðlum verið mjög jákvæð,“ segir Margrét.

Hvernig gekk vinnan við lokaverkefnið?

„Vinnan við lokaverkefnið gekk vel, við fórum m.a. til Ítalíu að skoða búnað í mars 2020, á sama tíma var Covid að byrja og Ítalía lenti illa í því. Við rétt komumst því heim áður en öllu var skellt í lás. Mamma og pabbi sem eru eigendur kúabúsins studdu mig alla leið og var gott að láta þau lesa reglulega yfir ritgerðina þar sem að þau hafa sjálf mikla þekkingu á landbúnaði og gátu þar af leiðandi leiðrétt mig ef að ég var að misskilja eitthvað. Ég viðurkenni þó að það gat líka tekið mikið á taugarnar hvað þau gátu verið smámunasöm en allt skilaði það sér þangað sem við erum komin í dag. 
Gaman líka að það fólk sem að ég sótti upplýsingar til hvað varðar verð, leyfi og fleira er allt sama fólk og ég hef verið að vinna með í gegnum þetta allt. Þannig að lítil BS-ritgerð hefur orðið að stóru verkefni sem er með 2 starfsmenn í fullri vinnu auk þess sem að fjölskyldan öll tekur þátt í þessu. Verkefnið stefnir jafnvel þangað að það geti orðið mun stærra.“

Hefur þú einhverjar ráðleggingar til þeirra sem eru að velta fyrir sér hvað þeir eiga að gera í sínu lokaverkefni?

„Ég stend í þeirri trú að það sé miklu skemmtilegra að velja sér lokaverkefni sem maður hefur virkilega áhuga á, ég tala nú ekki um ef nemendur velja sér að gera viðskiptaáætlun. Það er hrikalega gaman að sjá hugmynd á blaði verða að veruleika. Ég mæli líka með því að velja sér leiðbeinanda vandlega, því að eftir á sé ég að það var miklu betra að fá fleiri athugasemdir frá leiðbeinandanum, með því gat ég lagað það sem upp á vantaði og var betur í stakk búin að takast á við verkefnið eftir á,“ segir Margrét að lokum.

Hægt er að fylgjast með starfsemi Hreppamjólkjur á Facebook-síðu fyrirtækisins.

Flaska af Hreppamjólk