Skip to main content
29. apríl 2019

Fleiri vilja verða kennarar

Jákvæð teikn eru á lofti um aukna aðsókn að leik- og grunnskólakennaranámi í Háskóla Íslands en um 30% fjölgun er í umsóknum um framhaldsnám til kennsluréttinda fyrir næsta skólaár miðað við meðaltal síðustu fimm ára. Heildarfjöldi umsækjenda um M.Ed.-nám til kennsluréttinda í leik- og grunnskólum í ár er 264 en meðaltal síðustu fimm ára er 185,5. Aðsókn í menntun framhaldsskólakennara hefur verið svipuð síðustu ár og hafa um hundrað manns sótt um námið ár hvert.

„Það er ljóst að sífellt fleiri telja það góðan kost að vera með leyfisbréf til kennslu enda býður kennarastarfið upp á fjölbreyttan starfsvettvang og mikla starfsmöguleika. Þá er næsta víst að aðgerðir stjórnvalda til að fjölga kennaranemum eru veruleg hvatning til þeirra sem íhuga kennaranám. Í ár varð 30% aukning umsókna um M.Ed.-nám í grunnskólakennarafræði en aðsókn í leikskólakennarafræði er svipuð og í fyrra. Vert er að hafa í huga að um þriðjungsfjölgun varð í leikskólakennaranámi 2018 og sé litið aftur til ársins 2015 þá hefur umsóknafjöldi tvöfaldast. Á síðustu árum hefur það einnig færst í aukana að fólk sæki í kennsluréttindanám að loknu bakkalárprófi í öðrum greinum,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var boðuð stórsókn í menntamálum og eru aðgerðir til að fjölga kennaranemum þær fyrstu sem ráðist er í. Aðgerðirnar fela meðal annars í sér að frá og með næsta hausti býðst leik- og grunnskólakennaranemum á lokaári launað starfsnám. Þá geta nemendur á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi sótt um námsstyrk sem nemur alls 800.000 kr. til að sinna lokaverkefnum sínum samhliða launuðu starfsnámi. 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið veitir enn fremur styrki til að fjölga kennurum með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn og kennsluráðgjöf. Þess ber að geta að umsóknum í meistaranám í starfstengdri leiðsögn fjölgaði um 100% á milli ára. 

Sjá: Aðgerðir til að fjölga kennurum

Umsóknarfrestur um  framhaldsnám við Háskóla Íslands rann út þann 15. apríl síðastliðinn en opið er fyrir umsóknir í grunnnám og viðbótardiplómur á meistarastigi til 5. júní næstkomandi.

Sjá: Vefur kennaranáms

""