Skip to main content
15. janúar 2024

Fjórir öndvegisstyrkir til vísindafólks við Háskóla Íslands

Fjórir öndvegisstyrkir til vísindafólks við Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vísindafólk við Háskóla Íslands hlaut alla fjóra öndvegisstyrkina sem úthlutað var úr Rannsóknasjóði Íslands í ár. Tilkynnt var um úthlutun úr sjóðnum föstudaginn 12. janúar og samanlagt fá vísindamenn og doktorsnemar við HÍ rúmlega 50 styrki úr sjóðnum að þessu sinni.

Rannsóknasjóður Íslands styrkir árlega verkefni á öllum sviðum vísinda. Þar á meðal eru öndvegisstyrkir til rannsóknarverkefna sem eru líkleg til að skila íslenskum rannsóknum í fremstu röð á alþjóðavettvangi. Öndvegisstyrkirnir eru meðal hæstu styrkja sem veittir eru til vísindarannsókna hér á landi. 

Alls bárust Rannsóknasjóði 353 gildar umsóknir um styrki að þessu sinni og voru 67 þeirra styrktar eða 19% umsókna, eftir því sem fram kemur á vef Rannís. Styrkveitingar til nýrra verkefna nema á þessu ári um 1,1 milljarði króna en þar sem verkefnin eru almennt til þriggja ára verður heildarkostnaður vegna þeirra tæplega 3,3 milljarðar króna á árunum 2024-2026. 

Að þessu sinni voru veittir fjórir öndvegisstyrkir en umsóknir um slíka styrki reyndust 29. Vísindafólk við HÍ kemur að öllum styrktum verkefnum:

  • Óttar Rolfsson, prófessor við Læknadeild, og Sarah McGarrity, rannsóknasérfræðingur við sömu deild, hljóta ásamt erlendu samstarfsfólkiu styrk til verkefnisins „Mat hormónasvars í losti á starfsemi æðaþels“.
  • Sigríður Þorgeirsdóttir og Björn Þorsteinsson, prófessorar við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði, hljóta ásamt innlendu og erlendu samstarfsfólki styrk til verkefnisins „Frelsi til merkingarsköpunar: Líkamlegar reynslubundnar rannsóknir“.
  • Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við Hagfræðideild, og erlendur samstarfsaðili hennar hlýtur styrk til verkefnisins „Sokkinn kostnaður Ísland (SCICE)“.    
  • Unnar Bjarni Arnalds og Snorri Þorgeir Ingvarsson, prófessorar við Raunvísindadeild, og Friðrik Magnus, vísindamaður við Eðlisfræðistofnun, hljóta styrk til verkefnisins „Segulmetaefni“

Auk þess bárust 159 umsóknir um verkefnisstyrki í sjö flokkum vísinda og voru 30 rannsóknarverkefni styrkt. Tuttugu og fjórir styrkjanna komu í hlut vísindafólks við HÍ og tengdar stofnanir og styrkt verkefni eru m.a. á sviði efnafræði, eðlisfræði, jarðvísinda, umhverfisverkfræði, vélaverkfræði, tölvunarfræði, líf- og læknavísinda, lýðheilsuvísinda, menntavísinda, íþrótta- og heilsufræði, þjóðfræði og heimspeki.

Ellefu nýdoktorastyrkir voru veittir að þessu sinni og sjö þeirra koma í hlut nýdoktora við HÍ og tengdar stofnanir. Styrkirnir eru á sviði eðlisfræði, jarðvísinda, véla- og iðnaðarverkfræði, lífvísinda, sálfræði, heimspeki og miðaldafræða.

Af 106 umsóknum um doktorastyrki voru 22 styrktar og renna 17 þeirra til doktorsnema við Háskóla Íslands á jafn fjölbreyttum sviðum og eðlisfræði, efnafræði, iðnaðarverkfræði, líffræði, lífvísindum, lyfjavísindum, hnattrænum fræðum, umhverfis- og auðlindafræði, lögfræði, sálfræði, bókmenntafræði, landfræði og fornleifafræði.

Alls eru því styrkir til vísindamanna og doktorsnema við HÍ og tengdar stofnanir 52 talsins. Yfirlit yfir allar styrktar rannsóknir er að finna á vef Rannís.

Hluti styrkþega úr Rannsóknasjóði við úthlutun á dögunum