Skip to main content
14. nóvember 2018

Fjölþættar aðgerðir í þágu bættrar líðanar háskólanema

""

Háskóli Íslands hefur á síðustu mánuðum og misserum unnið að fjölþættum aðgerðum til að efla sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu við stúdenta og ungt fólk. Með því vill skólinn bregðast við ákalli stúdenta um aukna þjónustu á þessu sviði.

Mikil umræða hefur verið um geðheilsu ungs fólks undanfarin misseri og leitar Háskólinn sífellt nýrra leiða til að koma til móts við þarfir nemenda sinna í þessu tilliti enda góð andleg líðan ein af forsendum þess að fólki vegni vel í námi. 

Skólinn hefur nýlega ráðið nýjan sálfræðing við Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands og eru þeir því orðnir tveir hjá ráðgjöfinni. Til stendur að ráða þriðja sálfræðinginn til starfa í vetur. Jafnframt hefur skólinn myndað geðheilbrigðisteymi sem hefur yfirsýn yfir og þróar geðheilbrigðisþjónustu við skólann. Í teyminu sitja geðlæknir, námsráðgjafi, sálfræðingar, fulltrúi stúdenta og fulltrúi Kennslusviðs. 

Þá hefur Kennslusvið skólans í haust staðið fyrir tveimur námskeiðum fyrir nemendur þar sem hugrænni atferlismeðferð er beitt til að hjálpa stúdentum að takast á við ýmsa andlega kvilla. Fullt hefur verið á báðum námskeiðunum og þörfin því augljóslega brýn. Kennslusvið bauð upp á hliðstætt námskeið á sl. vormisseri sem þóttist takast afar vel.  

Enn fremur hóf Sálfræðiþjónusta háskólanema, sem starfrækt hefur verið innan Sálfræðideildar frá árinu 2013, í haust að bjóða upp á endurgjaldslausa hópmeðferð fyrir nema sem vilja leysa úr sálrænum vanda og bæta geðheilsu sína. Sálfræðingar, doktorsnemar og forstöðumaður ráðgjafarinnar hafa séð um hópmeðferðina og þar hafa öll sæti í meðferðinni einnig verið skipuð. 

Enn fremur hefur Kennslusvið Háskólans veitt geðfræðslufélaginu Hugrúnu styrk til að efla starf sitt en félagið, sem á uppruna sinn í samstarfi nemenda í sálfræði, hjúkrunarfræði og læknisfræði innan Háskóla Íslands, leggur áherslu á að fræða framhaldsskólanema um geðheilbrigði. Hafa kynningarkvöld Hugrúnar verið afar vel sótt. 

Með þessum aðgerðum vill skólinn leggja sitt af mörkum til að efla seiglu ungs fólks og gera það betur í stakk búið til þess að takast á við áskoranir fullorðinsáranna, þar á meðal í háskólanámi. Aðgerðirnar bætast við ýmsa stoðþjónustu sem lengi hefur staðið stúdentum við Háskóla Íslands til boða. Má þar nefna ýmis námskeið og fræðslu á vegum Náms- og starfsráðgjafar skólans og áðurnefnda Sálfræðiþjónustu háskólanema þar sem sálfræðinemar, undir handleiðslu kennara, veita háskólastúdentum og börnum þeirra aðstoð við að leysa úr ýmiss konar sálrænum vanda. 

""