Skip to main content
30. ágúst 2018

Er loðnan að hverfa?

Síðasta aldarfjórðunginn hafa orðið miklar breytingar á göngumynstrum loðnunnar sem er einn helsti nytjafiskur Íslendinga. Síðasta vetur gerðist það í fyrsta sinn í langan tíma að umtalsverður hluti hrygningarstofnsins hrygndi fyrir norðan land. 

„Í upphafi þessarar aldar fór að bera á breytingum á loðnugöngum. Á haustin færðust torfurnar nær Grænlandi og fæðugangan færðist af vestanverðu Íslandshafi nær Grænlandi. Fræðimenn grunaði að þessar breytingar mætti rekja til hlýnunar sjávar. Hafrannsóknastofnun fylgdist með breytingunum með mælingum, en líkön vantaði og aðferðir til að spá til hvers þessar breytingar gætu leitt.“ Þetta segir Björn Birnir, gestaprófessor við Háskóla Íslands og prófessor við Háskólann í Kaliforníu í Santa Barbara, sem heldur fyrirlestur um rannsóknir sínar og samstarfsmanna í Veröld  föstudaginn 31. ágúst. Fyrirlesturinn er öllum opinn en hann hefst kl. 12 og stendur í um klukkustund. 

Viðburðurinn í beinni.
 
Björn og samstarfsmenn hafa vakið feiknarathygli fyrir rannsóknir sínar á göngumynstri uppsjávarfiska í Norður-Íshafi og kringum Ísland og hvaða hlutverki göngurnar gegna í lífríki sjávar. Rannsóknirnar þykja hafa sýnt fram á áhrif loftslagsbreytinga á loðnuna, einn mikilvægasta fiskinn í lífríki sjávar hér við land. 

„Í þessum fyrirlestri munum við rekja hitabreytingar sem hafa orðið í straumum í hafinu fyrir norðan Ísland, Labradorhafinu milli Grænlands og Kanada og Barentshafinu fyrir norðan Noreg og Rússland. Í þessum þrem höfum eru loðnustofnar sem eru stór hluti af fæðu nytjafiska, þar á meðal þorsksins. Þegar meginlöndin hafa hitnað hefur hluti þessar hafsvæða kólnað. Hitnun á landi hefur leitt af sér kólnun í hluta Íshafsins. Við munum lýsa samstarfsverkefni Hafrannsóknarstofnunar og Háskóla Íslands og fjögurra landa, Kanada, Íslands, Noregs og Bandaríkjanna, þar sem reynt er að nota loðnustofnana til að mæla gróðurhúsaáhrifin í hafinu. Breytingarnar á göngum loðnustofnanna verða notaðar til að reikna hitabreytinguna í Íshafinu. Það getur gefið til kynna hversu hratt hitinn eykst í Norðurhöfum og hversu hratt Grænlandsjökull gæti bráðnað, sem mundi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir loftslag á norðurhveli.“

Loðnan undirstöðufiskur í fæðukeðju bolfisks
Björn Birnir segir að loðnan sé eins og margir vita undirstöðufiskur í fæðukeðju bolfisks við Ísland, en hún er yfir þriðjungur af fæðu botnfiska stóran hluta ársins. „Hún er auk þess veidd vegna hrogna og mjöls,“ segir Björn sem hefur þróað reiknilíkön með samstarfsteymi sínu fyrir loðnu, síld og makríl sem taka sjávarstrauma og sjávarhita með í reikninginn og spá fyrir um göngumynstur og hegðun þessara tegunda. 

Björn segir að líkanið megni að reikna hrygningargöngurnar með hjálp hita og straummælinga frá gervihnöttum. „Reikningarnir byggja líka á mælingum á upphafsdreifingu torfanna áður en gangan fer af stað. Þar af leiðandi er mikilvægt að samspil sé á milli mælinganna og reikninganna og það verður ekki ef mælingar fara ekki fram eins og gerðist því miður árið 2015 vegna fjárskorts. Því er erfitt að komast að því hvað nákvæmlega gerðist þá.“

Björn segir að loðnan geti breytt hitaþoli sínu meira en aðrar tegundir og komist því í kaldari sjó. „Hún myndar gríðarlega stórar torfur, hrygningargangan getur talið 10 milljarða fiska, og fer langt norður í Íshafið, norður fyrir Jan Mayen í fæðugöngu sinni á sumrin. Þar nærist hún á dýrasvifi sem hefur orðið til vegna blómgunar plöntusvifsins á sumrin. Loðnan þrefaldast þar af stærð og þyngd og flytur hinn gríðarlega lífmassa suður til hafsvæðanna í kringum Ísland í haustbyrjun. Hún er eini fiskurinn sem getur flutt allan lífmassann þessa vegalengd og myndar því eina af undirstöðum íslenskra fiskiveiða. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál ef loðnan hættir að hrygna við Ísland og það yrðu alvarleg tíðindi fyrir íslenskt hagkerfi.  Við verðum að vona að veitt verði meira fé til þessara rannsókna í framtíðinni.“

Spáir loðnan bráðnun Grænlandsjökuls?
Björn Birnir segir að vísindamenn vilji skilja og reikna allan lífsferil loðnunnar. „Við viljum skilja til fullnustu bæði fæðu- og hrygningargöngu loðnunnar í höfunum fyrir norðan og kringum Ísland. Þótt margt sé enn óljóst varðandi þetta ferli og sviptingar í hita sjávar,“ segir Björn, „þá getum við nú samt áttað okkur á hvaða áhrif loftslagsbreytingar í hafinu við landið hafa á fiskistofna sem við veiðum og raunar á lífríkið allt.“

Björn segir að vísindamenn geti ef til vill notað þessar sviptingar í umhverfi okkar til að reikna hraða loftslagsbreytinganna og hvenær búast megi við bráðnun Grænlandsjökuls og Suðurhvelsíssins. „Það er mögulega hægt að leggja saman mælingar á hitastigi í hafdjúpinu á milli Íslands og Grænlands ásamt útreikningum á því hvar loðnan heldur kyrru fyrir meðan hún er að verða fullþroska. Þessi staður hefur verið að færast í norðvestur og hraðinn getur sagt okkur til um hraða hlýnunar sjávar í Norðurhöfum. Þetta er spurning sem allur heimurinn leitar svars við.“
 

Björn Birnir