Skip to main content
26. janúar 2024

Eitthvað fyrir alla á Atvinnudögum HÍ

Eitthvað fyrir alla á Atvinnudögum HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hinir árlegu Atvinnudagar HÍ verða haldnir dagana 29. janúar til 2. febrúar þar sem nemendum og öðrum áhugasömum gefst kostur á að spjalla við frumkvöðla, læra um fyrstu skrefin í fjárfestingum, fara í skoðunarferð á Keflavíkurflugvöll, kynna sér atvinnutækifæri í Evrópu og svo mætti lengi telja.

Að dagskránni í ár standa Tengslatorg HÍ, Nemendaráðgjöf HÍ, Vísindagarðar HÍ, Fjármála- og atvinnulífsnefnd Stúdentaráðs HÍ, Miðstöð framhaldsnáms og KLAK - Icelandic Startups. Þetta er í níunda sinn sem Atvinnudagar eru haldnir og hefur eitt stef verið haft að leiðarljósi hvert ár. Í ár verður hins vegar sú breyting á að hver dagur Atvinnudaga mun hafa eigið þema enda dagskráin afar fjölbreytt. „Í ár viljum við koma með ný sjónarhorn á það hvernig er best er að stýra starfsferlinum og því endurspegla þemun tækifæri innan og utan HÍ sem bjóðast stúdentum til að efla starfshæfni sína, kynnast og koma sér út á vinnumarkaðinn,“ segir Jónína Kárdal, náms- og starfsráðgjafi og verkefnisstjóri Tengslatorgs HÍ, sem hefur haft yfirumsjón með metnaðarfullri dagskrá Atvinnudaga.

Jónína Kárdal

Jónína Kárdal, náms- og starfsráðgjafi og verkefnisstjóri Tengslatorgs HÍ.

Fjölbreytt dagskrá innan og utan HÍ

Dagskráin hefst mánudaginn 29. janúar með opnunarviðburði undir yfirskriftinni „Ertu til í nýsköpun?“ sem fer fram í Grósku. Þar flytur Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, ávarp og haldnar verða kynningar frá Vísindagörðum,  KLAK - Icelandic Startups og Nýsköpunarsjóði námsmanna hjá Rannís sem styðja við frumkvöðla. Í göngugötu Grósku geta áhugasöm svo spjallað við fulltrúa um 20 sprotafyrirtækja og stofnana sem kynna m.a. atvinnutækifæri tengd nýsköpun.

Stúdentaráð lætur ekki sitt eftir liggja á Atvinnudögum og á þriðjudeginum tekur Fjármála- og atvinnulífsnefnd Stúdentaráðs við undir þemanu „Fyrirtækið ég“ á Litla Torgi Háskólatorgs. Þar munu sérfræðingar frá Landsbankanum, Háskóla Íslands og BHM flytja erindi um hvernig eigi að skara fram úr í atvinnuleit og viðhalda persónulegu vörumerki, hvernig eigi að byrja að fjárfesta, réttindi í kjarasamningum og viðbótarlífeyrissparnað. „Oft heyrir maður af því að nemendur viti ekki í hvorn fótinn á að stíga þegar kemur að ferilskrá, kjarasamningum og þeim hlutum sem þarf að huga að þegar einstaklingar fara úr námi og inn á vinnumarkað. Atvinnudagar gefa nemendum tækifæri á að skyggnast inn í framtíð sína á hagnýtan hátt, allt frá því hvernig sé best að skera sig úr í atvinnuleit yfir í hvernig sé best að byrja fjárfesta með sparnaði sínum. Og kannski finnur þú framtíðarvinnustaðinn þinn á Atvinnudögum,“ segir Danival Egilsson, formaður Fjármála- og atvinnulífsnefndar Stúdentaráðs.

„ Atvinnudagar gefa nemendum tækifæri á að skyggnast inn í framtíð sína á hagnýtan hátt, allt frá því hvernig sé best að skera sig úr í atvinnuleit yfir í hvernig sé best að byrja fjárfesta með sparnaði sínum. Og kannski finnur þú framtíðarvinnustaðinn þinn á Atvinnudögum,“ segir Danival Egilsson, formaður Fjármála- og atvinnulífsnefndar Stúdentaráðs.

„Brandurinn ég“

Eitt af óvenjulegri umfjöllunarefnum Atvinnudaga í ár er sennilega erindi Jóns Arnar Guðbjartssonar, sviðsstjóra markaðs- og samskiptasviðs HÍ, „Brandurinn ég“ sem er hluti af dagskrá Fjármála- og atvinnulífsnefndar. Í erindi sínu mun Jón Örn fjalla um möguleika þess að vera okkar eigið persónulega vörumerki. Þetta vörumerki byggir á ásýnd okkar og tón – hvernig við birtumst og tjáum okkur – en ekki síður á reynslu okkar, þekkingu og færni og hvernig við hagnýtum þessa þætti í þágu okkar sjálfra og annarra. En getum við stýrt okkur eins og hverju öðru vörumerki? „Stundum er sagt að fyrirtæki vinni að mörkun til að greina sig frá keppinautum og gera sig þannig fýsilegri gagnvart þeim sem hyggja á viðskipti á því sviði sem fyrirtækin starfa. Manneskjur hafa á svipaðan hátt áhrif á eigið orðspor og ímynd með hegðun og orðum og öðru því sem víkur að veruleikanum sem við lifum í. Eins og með fyrirtækin hefur reynslan og sagan sterkan þátt í orðsporinu. Getum við markað okkur meðvitað? Ég mun fara í gegnum alls kyns pælingar sem snúa að þessu,“ segir Jón Örn.

Jon Orn

Jón Örn Guðbjartsson, sviðsstjóri Markaðs- og samskiptasviðs HÍ.

Auk þess verða haldnir verða þrír viðburðir sem eru sérstaklega ætlaðir doktorsnemum þar sem sjónum verður beint að atvinnutækifærum þeirra utan hinna hefðbundnu akademísku leiða. Sérfræðingar munu kynna aðferðir og tól til að kanna starfsmöguleika utan háskólans og benda á fyrirtæki og stofnanir sem líkleg eru til að hafa áhuga á þeim sem lokið hafa doktorsgráðu.

Viðburðir Atvinnudaga munu einnig teygja sig út fyrir veggi háskólans því boðið verður upp á skoðunarferð um starfsstöðvar Isavia og Mace, bresks bygginga- og ráðgjafarfyrirtækis, á Keflavíkurflugvelli auk þess sem árlegir Framadagar AIESEC, alþjóðlegra ungmennasamtaka, verða haldnir í Háskólanum í Reykjavík. Þar geta stúdentar átt samtöl við fyrirtæki um möguleg sumar- og framtíðarstörf.  

Mikilvægt að sjá tækifærin í nýsköpun

Aðspurð hvaða viðburður veki hjá henni mestan áhuga segir Jónína erfitt að gera upp á milli þeirra. „Þeir eru fjölbreyttir og margir en ef ég á að nefna einn þá er það opnunarviðburðurinn 29. janúar kl. 12-14 í Grósku. Þar er þemað: Ertu til í nýsköpun? Mér finnst skipta miklu máli að stúdentar HÍ átti sig á hvað felist í nýsköpun, fái fræðslu og uppgötvi margvísleg tækifæri sem felast í henni. Við fáum að heyra reynslusögu ungs frumkvöðuls ásamt því að kynnast því hvers konar stuðningur er í boði fyrir stúdenta. Svo er rúsínan í pylsuendanum að fjölbreytt nýsköpunar- og frumkvöðlafyrirtæki verða á staðnum til að kynna sig, ræða málin og hver veit nema stúdentar finni þar framtíðarstarfstækifæri.“

Dagskrá Atvinnudaga má sjá í heild sinni á vef HÍ

Nemandi á Háskólatorgi