Dulspeki í Ritinu | Háskóli Íslands Skip to main content

Dulspeki í Ritinu

13. júní 2017

Dulspeki er þema fyrsta heftis Ritsins 2017. Ritstjórar eru Auður Aðalsteinsdóttir og Benedikt Hjartarson. 

Tvær þemagreinanna eru helgaðar því gróskumikla tímabili í upphafi tuttugustu aldar þegar íslensk nútímamenning er í mótun, en þetta er jafnframt það tímabil þegar dulspekihugmyndir eru einna miðlægastar hér á landi. Bergljót S. Kristjánsdóttir fjallar um lífsspeki Þórbergs Þórðarsonar, eins þeirra íslensku höfunda sem sökktu sér ofan í rit um dulræn efni á þessum árum. Grein hennar varpar ekki aðeins nýju ljósi á þennan þátt í höfundarverkinu, sem fræðimenn hafa löngum vitað af en lítið gert með, heldur sýnir hún einnig að dulspekin er að mörgu leyti lykill að því að skilja þekkingarleit, þjóðfélagsgagnrýni og fagurfræðilega afstöðu höfundarins. Benedikt Hjartarson fjallar um rit Helga Pjeturss, Nýal, sem kom út í þremur bindum á árunum 1919 til 1922. Greinin tekur á margbrotnu sambandi raunvísindalegra kenninga, dulrænna trúarhugmynda og nýstárlegra tjáningaraðferða í sérstæðri „lífgeislafræði“ Helga.

Hinar þemagreinarnar tvær færa okkur nær samtímanum og því tímabili sem í samhengi dulspekinnar er gjarnan kennt við nýaldarhreyfingar. Sólveig Guðmundsdóttir fjallar um hreyfingu aksjónismans í Vín og það mikilvæga hlutverk sem dulrænar trúarhefðir gegndu í hinu þjóðfélagslega uppgjöri í Austurríki á eftirstríðsárunum. Loks fjallar Gísli Magnússon um skáldsögu danska metsöluhöfundarins Peters Høeg, Den stille pige, sem kom út 2006. Greining Gísla á hörðum viðbrögðum gagnrýnenda við verkinu sýnir að afstaðan í garð andlegra strauma og dulrænna trúarhefða markast af djúpstæðu óþoli í samtíma okkar.

Þýddu greinarnar eru tvær. Í öðru tilvikinu er um að ræða frumútgáfu á grein eftir Tessel M. Bauduin sem hefur á síðustu árum látið að sér kveða innan vettvangs nýrri rannsókna á dulspeki. Hin greinin er eftir Andreas B. Kilcher og hefur að geyma safn af þekkingarfræðilegum rannsóknartilgátum um dulspeki. Greinin er í senn ögrandi tilraun til að ná utan um þetta víðfeðma efni og beitt framsetning á þeim lykilspurningum sem við er að etja þegar fræðimenn reyna að ná tökum á fyrirbrigði dulspekinnar og hlutverki þess í menningu nútímans.

Hægt er að lesa inngang Benedikts Hjartarsonar á Hugrás.

Kápa Ritsins 2017

Netspjall