Skip to main content
14. apríl 2023

COIL lifði þrátt fyrir, eða vegna COVID  

COIL lifði þrátt fyrir, eða vegna COVID   - á vefsíðu Háskóla Íslands

Síðastliðin átta ár hef ég átt í afar gjöfulu gagnvirku samstarfi við háskólakennara í Minnesota-háskóla (e. University of Minnesota (UMN)). Samstarfið hófst með alþjóðlegu námskeiði um forystu í hjúkrun við Háskóla Íslands vorið 2014, þar sem nemendur á meistara- og doktorsstigi og kennarar, frá fimm skólum í fjórum löndum; Svíþjóð og Lettlandi auk Íslands og Bandaríkjanna, komu saman. Í kjölfarið þróaðist kennslusamstarfið frekar og hafa námskeið í meistaranámi í hjúkrunarstjórnun við Háskóla Íslands og námskeið í nýsköpun og forystu í hjúkrun doktorsnáms við Minnesota- háskóla unnið saman frá þeim tíma, með sameiginlegu staðnámi í Háskóla Íslands að vori (sjá námskeiðið Forysta í hjúkrun – hnattræn nálgun, Háskóli Íslands, e.d.-b). 

Tveimur árum eftir að fyrsta alþjóðlega námskeiðinu í forystu í hjúkrun var hleypt af stokkunum hófum við Teddie Potter prófessor við Minnesota-háskóla, sem var í forystu fyrir námsleiðina í nýsköpun og forystu í hjúkrun, svokallað COIL (e. collaborative online international learning) samstarf (Helga Bragadóttir og Potter, 2019; Potter og Helga Bragadóttir, 2020). COIL byggir á gagnkvæmu samstarfi milli námskeiða í tveimur löndum, þar sem kennarar og nemendur vinna saman, að mestu án þess þó að ferðast milli landa, og án skráningar eða greiðslna milli skóla. Samstarfið hefur því falið í sér bæði staðnám og COIL og er óhætt að segja að með hvoru tveggja fái nemendur og kennarar tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn, öðlast nýtt sjónarhorn á viðfangsefnin, þróa sig í námi og kennslu, og þannig vaxa sem einstaklingar og fagfólk (Helga Bragadóttir og Potter, 2019; Helga Bragadóttir o.fl., 2020; Potter og Helga Bragadóttir, 2020).

Sameiginleg verkefni sem nemendur beggja skóla vinna og COILa um, fela í sér að hver nemandi vinnur verkefni í sínum nærumhverfi, skrifar samantekt um niðurstöður sínar og deilir á heimasíðu UMNnámskeiðsins í Canvas, og svo ræða nemendur saman um niðurstöðurnar ósamtímis í blönduðum umræðuhópum íslenskra og bandarískra nemenda og hafa til þess viku frá skilum samantekta. Í námskeiðinu Stjórnun í heilbrigðisþjónustu (Háskóli Íslands, e.d.-c) lúta sameiginlegu verkefnin að teymisvinnu (e. teamwork) og vinnuumhverfi (e. work environment) í heilbrigðisþjónustu, og í námskeiðinu Forysta í heilbrigðisþjónustu (Háskóli Íslands, e.d.-a) lúta verkefnin að samstarfi (e. partnership) í heilbrigðisþjónustu og forystu (e. leadership) við innleiðingu nýjunga í heilbrigðisþjónustu við innflytjendur. Skil verkefna og umræður um niðurstöður þeirra eru á ensku og reynir þar á íslensku nemendurna að skila sínum samantektum á öðru tungumáli og eiga í skriflegum samræðum um viðfangsefni hjúkrunarstjórnunar á ensku. Áskoranir geta því verið margar í námskeiði þar sem er COILað, en ekki síður sigrar. 

COIL byggir á gagnkvæmu samstarfi milli námskeiða í tveimur löndum, þar sem kennarar og nemendur vinna saman, að mestu án þess þó að ferðast milli landa, og án skráningar eða greiðslna milli skóla. Samstarfið hefur því falið í sér bæði staðnám og COIL og er óhætt að segja að með hvoru tveggja fái nemendur og kennarar tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn, öðlast nýtt sjónarhorn á viðfangsefnin, þróa sig í námi og kennslu, og þannig vaxa sem einstaklingar og fagfólk.

Í nokkur ár höfum við Teddie Potter, ásamt samstarfskennurum okkar, unnið saman að kennslu ósamtímis (e. ansynchronous) á netinu í gegnum COIL yfir vormisserið, og í staðnámi í maí þegar kennarar frá Minnesota- háskóla koma með hóp nemenda sem vinna með mínum nemendum daglega í tæpa viku. Án þess að kasta rýrð á aðra þætti námskeiðanna, held ég að mér sé óhætt að segja að þessi tæpa vika sem við verjum saman í maí, sé hápunktur námskeiðanna Stjórnun í heilbrigðisþjónustu (Háskóli Íslands, e.d.-c) og Forysta í heilbrigðisþjónustu (Háskóli Íslands, e.d.-a), en það eru sömu námskeið og við COILum í yfir misserið. 

Þegar COVID-19 faraldurinn reið yfir heimsbyggðina á vormisseri 2020, COILuðum við sambærilega og árin á undan og væntum þess að nemendur og kennarar frá Minnesota-háskóla kæmu til Íslands í staðnám í maí líkt og hafði verið árin áður. Eins og öllum er kunnugt setti heimsfaraldurinn strik í marga reikninga svo sem ferðalög milli landa og að hittast augliti til auglitis. Endurskoða varð námskrá námskeiðsins í hjúkrunarstjórnun, þ.m.t. staðkennslu og verkefni vorið 2020. Var brugðið á það ráð að aðlaga verkefni aðstæðum og hafa samtímis umræðutíma á Zoom með nemendum við Minnesota-háskóla. Allt var þetta gert undir miklu álagi og þurfti að endurskoða kennslutilhögun og ákveðna þætti verkefna sem olli viðbótarstreitu á þegar störfum hlaðna nemendur sem auk þess að vera í krefjandi námi á meistara- eða doktorsstigi störfuðu sem hjúkrunarfræðingar sem mæddi afar mikið á í COVID-19 heimsfaraldrinum. COILið klikkaði þó aldrei þetta misserið, en staðnámið varð að víkja. 

Síðla hausts 2020 varð ljóst að búast mátti við langvarandi heimsfaraldri og því tekin ákvörðun um að endurskoða kennsluaðferðir og verkefni í námskeiðum hjúkrunarstjórnunar vorið 2021. Gert var ráð fyrir eingöngu fjarkennslu og ekki gert ráð fyrir að nemendur og kennarar frá Minnesota-háskóla kæmu í maí það ár. Finna þurfti nýtt og spennandi verkefni í stað staðnámsins með Minnesota-fólkinu, eitthvað sem væri jafn lærdómsríkt og gefandi, sem hægt væri að vinna á netinu. COVID-19 heimsfaraldurinn bauð upp á tækifæri þrátt fyrir áskoranir, og með samstarfi kennara og nemenda var unnið að rannsókn sem tengdi námsefnið við atvinnulífið, störf og reynslu hjúkrunardeildarstjóra. Verkefnið krafðist frumkvæðis, þrautseigju og samhæfingar allra hlutaðeigandi, en tókst með ágætum (Helga Bragadóttir og Ásta B. Schram, 2022). Hluti námsins sem hafði falist í staðvinnu á Íslandi með Minnesota-nemendum og kennurum breyttist því umtalsvert, en COILhlutinn hélt sér. 

Reynsla mín af alþjóðlegu kennslusamstarfi er góð og einn stærsti þáttur starfsþróunar minnar í hlutverki háskólakennara. Hún hefur kennt mér, auk annars, að það að vera skapandi er lífsnauðsynlegt, ekki síst þegar kreppir að eins og gerðist í COVID-19 heimsfaraldrinum. Jafnframt sýnir hún að COIL er alger snilld og nokkuð auðveld leið til að leyfa öllum nemendum að taka þátt í alþjóðlegu námi. Stefna Háskóla Íslands er að efla alþjóðlegt samstarf í námi, kennslu og rannsóknum (Háskóli Íslands, e.d.-d). Það er eitt af meginmarkmiðum okkar í hjúkrunarstjórnun að hjálpa nemendum að vaxa sem heimsborgarar (e. glocal leaders) (Helga Bragadóttir, 2022), sem hlýtur að eiga við allt nám háskólans. Ég hvet því kennara til að skoða möguleikann á að COILa og bendi á að AURORA-verkefnið (2022) leggur sérstaka áherslu á COIL. Við endurnýjun samstarfssamnings Háskóla Íslands og Minnesota-háskóla í september sl. var einnig undirrituð viljayfirlýsing um að Minnesota-háskóli gengi til liðs við AURORA-verkefnið (Aurora, 2022; Háskóli Íslands, e.d.-d), sem undirstrikar enn vilja og getu til fjölbreyttra kennsluhátta í alþjóðlegu samstarfi. COIL er afbragðs leið til alþjóðlegrar kennslu. Það lifði þrátt fyrir, eða vegna, COVID, sem undirstrikar ágæti þess. 

Greinin birtist í tímariti Kennslumiðstöðvar.

Helga Bragadóttir, deildarforseti við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands