Skip to main content
6. júní 2017

Ásta Dís ráðin lektor við Viðskiptafræðideild

""

Ásta Dís Óladóttir hefur verið ráðin lektor í alþjóðaviðskiptum við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands til fimm ára, frá 1.júlí 2017, en Ásta Dís hefur gegnt stöðu lektors í viðskiptafræði frá júlí 2016.

Hún er með BA-gráðu í félagsfræði, meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun og doktorspróf í alþjóðlegum viðskiptum frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn (CBS).

Ásta Dís var framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, dósent í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst og forseti Viðskiptadeildar, en hún var fyrst kvenna til að gegna stöðu deildarforseta í viðskiptadeild háskóla hér á landi.

Áður var hún aðjúnkt við Viðskipta-og hagfræðideild Háskóla Íslands ásamt því sem hún gegndi stöðu markaðs- og kynningarstjóra deildarinnar í um fjögur ár. Þá hefur hún sinnt stundakennslu við Háskólann í Reykjavík og hefur starfað sem kennari og rannsakandi við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn.

Ásta hefur víðtæka stjórnunarreynslu og hefur setið í stjórnum og verið stjórnarformaður fjölmargra fyrirtækja, bæði hér á landi og erlendis. Þá hefur hún gegnt trúnaðarstörfum og setið í ýmsum nefndum og ráðum á vegum hins opinbera, átt sæti í Háskólaráði Háskólans á Bifröst auk þess að sitja í endurskoðunarnefndum t.a.m. VÍS og Landsvirkjunar.

Ásta Dís Óladóttir, lektor við Viðskiptafræðideild