Skip to main content
2. september 2020

Á lista Times Higher Education tíunda árið í röð

""

Háskóli Íslands er í 400.-500. sæti á nýjum lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims sem birtur var í dag. Þetta er tíunda árið í röð sem skólinn kemst á listann. Hann er jafnframt sá eini hér á landi sem ratar á báða virtustu lista heims yfir þá háskóla sem hæst eru metnir á alþjóðavettvangi og taka til rannsókna, kennslu og áhrifa í alþjóðlegu vísindasamfélagi. 

Listi Times Higher Education byggist á úttekt tímaritsins á 13 mælikvörðum innan skóla sem snúa að rannsóknastarfi, áhrifum rannsóknanna í alþjóðlegu vísindastarfi, gæðum kennslu, námsumhverfi og alþjóðlegum tengslum. Alls metur tímaritið rúmlega 1.500 skóla að þessu sinni og hafa þeir aldrei verið fleiri. Háskóli Íslands komst í fyrsta sinn á lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á aldarafmælisárinu 2011 og hefur verið á honum alla tíð síðan, eða tíu ár í röð.

Times Higher Education hefur enn fremur á undanförnum misserum staðfest styrk Háskóla Íslands á fjölbreyttum fræðasviðum. Þannig komst skólinn á alls átta slíka lista í fyrra og höfðu þeir aldrei verið fleiri. Von er á nýjum slíkum listum í haust. Þá er skólinn í 201.-300. sæti yfir þá háskóla í heiminum sem hafa mest samfélagsleg og efnhagsleg áhrif út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna samkvæmt lista sem Times Higher Education birti í annað sinn í vor. 

Fyrr í sumar bárust enn fremur þau tíðindi að Háskóli Íslands væri í 501.-600. sæti á lista samtakanna ShanghaiRanking Consultancy yfir bestu háskóla heims 2020 en hann er ásamt lista Times Higher Education þekktasti og virtasti listinn yfir sterkustu háskóla heims. Háskóli Íslands er eini skólinn hér á landi sem komist hefur á Shanghai-listann og um leið sá eini sem er á báðum virtustu listunum. 

Önnur úttekt ShanghaiRanking, sem einnig var birt í sumar, sýndi jafnframt að staða Háskólans er afar sterk á fjölmörgum fræðasviðum. Samkvæmt listum sem ná til afmarkaðra vísinda- og fræðasviða er skólinn sá sjötti besti í heiminum á sviði fjarkönnunar, í 40. sæti yfir þá fremstu á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði, í hópi 150 bestu á sviði jarðvísinda og hjúkrunarfræði, í sæti 151-200 á sviði lífvísinda og í 200.-300. sæti innan landfræði, líffræði mannsins, stjórnmálafræði og ferðamálafræði, svo dæmi séu tekin.

„Góður árangur Háskóla Íslands í mörgum fræðigreinum á breiðu sviði vísinda og fræða á undanförnum árum er nánast undraverður. Markmið skólans er að vera í fremstu röð á alþjóðavísu og þjóna þannig íslensku samfélagi á framúrskarandi hátt. Þessi mikli árangur skólans hefur vakið athygli og skapað mörg tækifæri fyrir nemendur og starfsfólk skólans. Sem dæmi má nefna að skólinn er lykilaðili í samstarfi öflugra evrópskra háskóla innan Aurora-samstarfsnetsins sem hlaut nýlega veglegan styrk frá Evrópusambandinu í mikilli samkeppni til að efla starf sitt. Við höldum áfram ótrauð á þessari braut,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Nýjan lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims má finna á vefsíðu tímaritsins.
 

Aðalbygging Háskóla Íslands