Skip to main content
31. janúar 2019

300 sæti í Háskólaherminum fylltust á 10 mínútum

Áhugi framhaldsskólanema á Háskólaherminum í Háskóla Íslands, sem fram fer dagana 7. og 8. febrúar nk., er svo mikill  að það fylltist í öll 300 sætin í viðburðinum á einungis tíu mínútum. Von er á nemendum frá öllum landshornum að þessu sinni.

Háskólahermirinn er nú haldinn fjórða árið í röð en hann var settur á laggirnar árið 2016 með það að markmiði að gefa ungu fólki tækifæri til að kynnast starfsemi og námsframboði Háskólans af eigin raun og um leið styðja það í að taka upplýsta ákvörðun um nám og starf í framtíðinni. Jafnframt er verkefnið liður í að efla frekar samstarf Háskóla Íslands við framhaldsskóla landsins.

Í Háskólaherminum býðst framhaldsskólanemum að vera virkir þátttakendur í háskólasamfélaginu. Hver og einn þátttakandi heimsækir fjögur af fimm fræðasviðum skólans og kynnir sér námsframboð þar á lifandi og fjölbreyttan hátt. Dagskráin fer fram víða á háskólasvæðinu sem gefur þátttakendum jafnframt tækifæri á að kynna sér aðstöðu og víðtæka þjónustu skólans við nemendur.

Opnað var fyrir skráningu í Háskólaherminn 2019 fimmtudaginn 24. janúar kl. 10 og eins og fyrr segir fylltust öll sætin í Herminum á einungis tíu mínútum. Er það ótvírætt merki um miklar vinsældir verkefnisins meðal framhaldsskólanema en þess má geta að um 50 nemendur eru á biðlista eftir að komast að.

Framhaldsskólanemarnir sem taka þátt að þessu sinni koma úr öll landsfjórðungum og eru þátttökuskólar 23 að þessu sinni sem er metfjöldi.

Nánari upplýsingar um Háskólaherminn er að finna á vef Háskóla Íslands.

Þátttakendur í Háskólaherminum 2018