Skip to main content

Íslenskar fléttur gegn krabbameini

Helga M. Ögmundsdóttir, prófessor við Læknadeild

„Rannsóknin vísar veginn til markvissari meðferðar gegn krabbameini með því að nýta betur en nú er gert þær meðferðarleiðir sem þegar eru vel þekktar,“ segir Helga M. Ögmundsdóttir, prófessor við Læknadeild en hún kemur við sögu í nýrri þáttaröð um rannsóknir innan Háskóla Íslands. „Breytt efnaskipti eru eitt af megineinkennum krabbameinsfrumna og þau eiga verulegan þátt í því að þessar afbrigðilegu frumur fjölga sér og mynda ónæmi gegn lyfjum. Fyrir nokkrum árum varð okkur ljóst að hrein efni úr íslenskum fléttum, sem við höfðum rannsakað um skeið, verka á starfsemi frumulíffæra og efnaskipti frumnanna. Þarna opnast hugsanlega leiðir til að hafa áhrif á svörun krabbameinsfrumnanna við hefðbundinni meðferð,“ segir Helga. Hún fjallar nánar um samband lyfja og krabbameins í þáttaröðinni.

Helga M. Ögmundsdóttir

„Breytt efnaskipti eru eitt af megineinkennum krabbameinsfrumna og þau eiga verulegan þátt í því að þessar afbrigðilegu frumur fjölga sér og mynda ónæmi gegn lyfjum.“

Rannsóknin teygir uppruna sinn mörg ár aftur í tímann þegar Helga og Kristín Ingólfsdóttir, fyrrverandi rektor háskólans, hófu samstarf til að kanna áhrif efna, sem Kristín hafði einangrað úr ýmsum tegundum af fléttum, á starfsemi frumna.

„Fljótlega kom í ljós að nokkur efni hömluðu fjölgun krabbameinsfrumna en höfðu mjög lítil áhrif á eðlilegar frumur,“ segir Helga. „Eftir því sem við reyndum að komast nær því í hverju verkun fléttuefnanna á krabbameinsfrumur væri fólgin, fengum við niðurstöður fyrir tvö af þessum efnum sem bentu mjög eindregið til áhrifa á tiltekna þætti í starfsemi frumulíffæra og efnaskiptum.“

Rannsóknin hefur leitt í ljós að annað þessara efna, úsnínsýra úr hreindýrakrókum, sem er mosi, verkar á sýrubúskap og hefur þar með áhrif á orkuskipti og svokallað frumusjálfsát. Hitt efnið, prótólichesterínsýra úr fjallagrösum, verkar á fituefnaskipti.

„Bæði þessi efni sýna samvirkni við krabbameinslyf og það á mismunandi hátt, sem virðist skýrast af áhrifum þeirra á efnaskipti. Þetta þarf nú að kanna mun betur og býður einnig upp á að líta til annarra efna og lyfja sem gætu verkað svipað,“ segir Helga.