Skip to main content

Skólarnir í lykilhlutverki í átt að sjálfbærni

Ólafur Páll Jónsson, dósent við Uppeldis- og menntunarfræðideild

„Ef það á yfirleitt að vera einhver framtíð sem nær lengra en rétt seilingarfjarlægð fram í tímann þá verður sú framtíð að vera sjálfbær. Og ef við viljum sjá fram á sjálfbæra framtíð verðum við að byrja nú þegar að taka sjálfbær skref,“ segir Ólafur Páll Jónsson, dósent í heimspeki, og vísar þá til eigin rannsóknarverkefnis sem ber heitið „Gildi í sjálfbærnimenntun“.  Rætt er við Ólaf Pál í nýrri sjónvarpsþáttaröð sem nefnist Fjársjóður framtíðar en þar er sjónum beint að rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands. Í öðrum þætti Fjársjóðs framtíðar fylgjumst við með rannsóknum á loftslagsbreytingum og hvernig sjálfbærnimenntun getur komið að notum til að auka meðvitund um nauðsyn þess að vernda náttúruna.

Hugtakið sjálfbærni eða sjálfbær þróun ætti flestum að vera kunnugt. Það gengur í grófum dráttum út á að skila umhverfi og samfélagi ekki í lakara ástandi til afkomenda sinna en það var þegar maður tók sjálfur við því. „Hættan er tiltölulega ljós, það er líka til haldgóð þekking á því sem þarf að gera. Vandinn er bara sá að til þess að eitthvað bitastætt gerist þurfa allir – eða langflestir að minnsta kosti – að taka þátt,“ segir Ólafur og bætir við að ekki sé nóg að búa yfir þekkingu á því sem þarf að gera.

Ólafur Páll Jónsson, dósent í heimspeki

Hugtakið sjálfbærni eða sjálfbær þróun ætti flestum að vera kunnugt. Það gengur í grófum dráttum út á að skila umhverfi og samfélagi ekki í lakara ástandi til afkomenda sinna en það var þegar maður tók sjálfur við því. „Hættan er tiltölulega ljós, það er líka til haldgóð þekking á því sem þarf að gera.

„Þekkingin ein og sér er ekki drifkraftur athafna heldur þarf gildismat og vilji að koma til. Og ef hafa á áhrif á gildismat og vilja þá þarf að byrja snemma og vinna lengi. Því gegna skólarnir lykilhlutverki í því að þoka samfélaginu í átt til sjálfbærni.“ Það er um þetta sem verkefnið snýst.

„Spurningin er eiginlega sú hvernig megi vinna með siðferðilega hvata til athafna í kennslu sem hefur sjálfbærni að markmiði,“ segir Ólafur Páll en þess má geta að sjálfbærni er einn af sex grunnþáttum í nýjum aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla. Rannsóknin er unnin í samvinnu við Karen Jordan, doktorsnema við Háskóla Íslands.

„Von okkar er að þegar upp verður staðið höfum við bæði lagt eitthvað til fræðilegrar undirstöðu gildamenntunar almennt en einnig lagt til hugmyndir um hvernig megi vinna með gildi og siðfræðileg viðfangsefni í sjálfbærnimenntun,“ segir Ólafur.