Skip to main content

Alþýðudýrlingar veita valdalausum rödd í Mexíkó

Kristín Guðrún Jónsdóttir, dósent við Deild erlenda tungumála, bókmennta og málvísinda

„Þetta er fyrsta bók sinnar tegundar sem kemur út í Mexíkó og ég held að þarna séu dregnar saman margvíslegar upplýsingar um alþýðudýrlinga sem hafa ekki komið fram áður, einkum og sér í lagi Jesús Malverde,“ segir Kristín Guðrún Jónsdóttir, dósent í spænsku, um nýja bók sína Bandoleros santificados: Las devociones a Jesús Malverde y Pancho Villa eða Heilagir stigamenn.Tignun Jesús Malverde og Pancho Villa.

Bókin fjallar um alþýðudýrlinga í Rómönsku Ameríku en sjónum er einkum beint að hinum mexíkósku Jesús Malverde og Pancho Villa. „Alþýðudýrlingar eru dýrlingar sem alþýðan hefur tekið í helgra manna tölu en þeir hafa ekki hlotið náð fyrir augum Vatíkansins og er hvergi að finna í dýrlingatölum eða skrám yfir opinbera dýrlinga. Þetta er átrúnaður sem á sér stað utan kirkjunnar,“ útskýrir Kristín.

Kristín Guðrún Jónsdóttir

Kveikjuna að bókinni má rekja til þess þegar Kristín bjó nærri landamærum Mexíkós og Bandaríkjanna þar sem hún kynnti sér bók- menntir og menningu þessara stóru landamæra.

Kristín Guðrún Jónsdóttir

Kveikjuna að bókinni má rekja til þess þegar Kristín bjó nærri landamærum Mexíkós og Bandaríkjanna þar sem hún kynnti sér bók- menntir og menningu þessara stóru landamæra. „Á ferðalögum mínum um þetta svæði rakst ég oft á brjóstmynd af svarthærðum manni með mikið yfirskegg og augabrúnir, klæddan hvítri kúrekaskyrtu með svartan hálsklút sem farandsalar voru að selja. Þetta reyndist vera alþýðudýrlingurinn Jesús Malverde. Ég heillaðist af því hvernig alþýðan lætur ekki segjast af yfirvaldinu og býr til sinn eigin heim með eigin dýrlingum – og þá varð ekki aftur snúið!“

Jesús Malverde er eins konar Hrói höttur Mexíkós. „Samkvæmt sögusögnum var hann uppi í lok nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu. Hann rændi ríka fátækum til handa og yfirvöld voru sífellt á eftir honum. Eftir dauða hans leituðu hinir nauðstöddu á náðir hans og smám saman varð hann að dýrlingi þeirra. Í síðari tíð hafa eiturlyfjabarónar og smyglarar gert hann að sínum verndardýrlingi,“ segir Kristín sem rannsakaði hvort aðrir stigamenn hefðu fengið sömu meðferð. „Ég fann merki þess í hinni þekktu byltingarhetju Mexíkóa, Pancho Villa. Flestir þekkja hann sem forsprakka norðanmanna í mexíkósku byltingunni en hann á sér aðra hlið sem er ekki vel þekkt og tengir hann trúarlegri iðkun og áheitum.“

Í bókinni tekur Kristín fyrir alls kyns texta sem hafa orðið til við tignun þessara manna. „Auk þess er kafli um hvernig alþýðudýrlingum reiðir af innan sem utan kirkjunnar. Þar kemur í ljós greinilegur stéttarmunur hinna áhrifalausu og þeirra sem valdið hafa,“ segir Kristín og bætir við: „Hinir valdalausu og áhrifalausu í samfélaginu mynda sér sínar eigin goðsögur og átrúnað út frá eigin stéttarstöðu. Má segja að tignun af þessu tagi sé sjálfsprottin alþýðumenning sem fræðimenn eins og Mikhail Bahktín og Carlo Ginzburg telja að sé horfin, en bókin sýnir fram á að hún er ljóslifandi í þessum heimshluta. Fólkið sem tilheyrir þeirri rödd samfélagsins, sem fær vart að heyrast, hefur fundið sér farveg í þessum dýrlingum.“

Tengt efni