Skip to main content

Ver mannréttindasáttmáli Evrópu okkur fyrir njósnum annarra ríkja?

Hildur Hjörvar, mag. jur. frá Lagadeild

Hröð tækniþróun síðustu ára og áratuga hefur auðveldað líf manna með ýmsum hætti og m.a. gert okkur kleift að fylgjast með vinum okkar og vandamönnum á fleygiferð um heiminn nánast í rauntíma. Þessari nýju tækni fylgja aftur á móti einnig ýmsar spurningar um friðhelgi einkalífs og möguleika óprúttinna aðila á að rjúfa hana.

„Friðhelgi einkalífs stafar töluverð hætta, ef svo má segja, af tækniþróun og mér er það hugleikið hvernig megi tryggja það að fólk njóti friðhelgi einkalífs í nútímasamfélagi,“ segir Hildur Hjörvar sem í meistaraverkefni sínu í lögfræði kannaði að hvaða leyti mannréttindasáttmáli Evrópu verndar friðhelgi einkalífs á okkar dögum þar sem landamæri hafa minna vægi en áður.

Hildur útskrifaðist vorið 2017 með hæstu meðaleinkunn sem gefin hefur verið á mag. jur.-prófi frá Lagadeild Háskóla Íslands en í námi sínu kynntist hún ýmsum hliðum lögfræðinnar, m.a. með þátttöku í alþjóðlegri málflutningskeppni Philip C. Jessup í Washington árið 2016. Þar kviknaði hugmyndin að lokaverkefninu. „Eitt umfjöllunarefna keppninnar var hvort ríki gæti borið beina ábyrgð gagnvart þegnum annars ríkis á inngripum í friðhelgi einkalífs þeirra,“ segir Hildur. Svo dæmi sé tekið, hver væri ábyrgð danska ríkisins samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu ef danskir aðilar myndu njósna um einhvern hér á landi?

Hildur Hjörvar

„Friðhelgi einkalífs stafar töluverð hætta, ef svo má segja, af tækniþróun og mér er það hugleikið hvernig megi tryggja það að fólk njóti friðhelgi einkalífs í nútímasamfélagi.“

Hildur Hjörvar

„Niðurstaða mín var sú að þau viðmið sem mannréttindadómstóll Evrópu hefur mótað um það hvenær ríki geti borið ábyrgð á mannréttindum þeirra sem staddir eru utan landsvæðis þess, nái í grunninn ekki utan um brot gegn friðhelgi einkalífs sem framkvæmd eru með rafrænum hætti. Ýmis slík tilfelli geta vissulega fallið undir vernd sáttmálans en það er mín niðurstaða að inngrip í friðhelgi einkalífs ein og sér veki ekki skyldur ríkja samkvæmt sáttmálanum eins og dómaframkvæmdin hefur verið hingað til,“ segir Hildur en bætir við: „Ég færði aftur á móti fyrir því rök að viðmið dómstólsins hafi þróast á atviksbundinn hátt og að vísbendingar séu í nýlegum dómum um að stoð gæti orðið fyrir því að telja rafræn inngrip í friðhelgi einkalífs vekja skyldur sáttmálans með framþróun í dómaframkvæmd.“

Spurð um þýðingu rannsóknarinnar bendir Hildur á að friðhelgi einkalífs eigi undir högg að sækja nú um stundir og það sé að hennar mati mikilvægt að lögvernd haldi í við tækniþróun. „Það myndi grafa mjög undan vernd friðhelgi einkalífs ef ríki mættu grípa inn í slíka friðhelgi þeirra sem staddir eru utan landamæra þeirra, óáreitt,“ segir hún að endingu.

Leiðbeinandi: Róbert Ragnar Spanó, prófessor við Lagadeild og dómari við Mannréttindadómstól Evrópu.