Skip to main content

Tengsl blæðinga og afstöðu kvenna til eigin útlits

Herdís Sveinsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild

„Það hvernig konur líta á sig sjálfar, á eigin líkama, á eðlilega líkamsstarfsemi, eins og blæðingar, og hvernig þær takast á við breytingar á líkamsstarfseminni virðist hafa ýmis áhrif á líðan þeirra og hvernig þeim farnast,“ segir Herdís Sveinsdóttir, prófessor í hjúkrunarfræði. Hún vinnur um þessar mundir að rannsókn á afstöðu kvenna til eigin útlits og hvaða augum þær líta líkama sinn og líkamsstarfsemi, ekki síst blæðingar.

Kveikjan að rannsókninni er m.a. staða kvenna í samfélaginu og þær kröfur sem gerðar eru til þeirra. Herdís segir ofuráherslu lagða á útlitsdýrkun í nútímasamfélagi og við lestur á erlendum rannsóknum hafi vaknað hjá henni áhugi á að skoða þá þætti í samhengi við blæðingar kvenna. „Möguleikar kvenna á að láta til sín taka hafa breyst gífurlega á undanförnum árum, en af hverju sjáum við samt enn jakkafötin á öllum þingum og ráðstefnum þar sem völdin sitja til borðs?“ spyr Herdís.

Herdís Sveinsdóttir

„Það hvernig konur líta á sig sjálfar, á eigin líkama, á eðlilega líkamsstarfsemi, eins og blæðingar, og hvernig þær takast á við breytingar á líkamsstarfseminni virðist hafa ýmis áhrif á líðan þeirra og hvernig þeim farnast.“

Herdís Sveinsdóttir

Blæðingar hafa lengi verið viðfangsefni í rannsóknum Herdísar. „Meistara- og doktorsverkefni mitt var um líðan kvenna fyrir blæðingar og jafnframt hef ég rannsakað breytingaskeið og blæðingar hjá stúlkum. Í tæp 20 ár hef ég kennt ljósmæðranemum á námskeiði um heilbrigði kvenna og í umræðum þar hef ég fylgst með hvernig viðhorf nemenda til líkamans og umræður um hann breytast. Í fyrra ritstýrði ég, ásamt Helgu Gottfreðsdóttur, dósent í hjúkrunarfræði, bók um heilbrigði kvenna og skrifaði þar kafla um upphaf tíðablæðinga. Það var hálfgerð endurkoma hjá mér að þessu viðfangsefni sem mér finnst óendanlega áhugavert en hefur lítið verið rannsakað hérlendis,“ segir Herdís enn fremur. Þess má geta að bókin „Við góða heilsu? Konur og heilbrigði í nútímasamfélagi“ var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna.

Tveir af nemendum Herdísar hafa þegar forprófað spurningalista vegna rannsóknarinnar. „Þar kom m.a. fram að jákvæð viðhorf til blæðinga tengjast jákvæðri líkamsímynd og minni sjálfshlutgervingu en áður. Sjálfshlutgerving felur í sér að menning sem hlutgerir konur í ákveðin viðföng, t.d. kynlífsviðföng, mótar konur þannig að þær samsama sig sjónarmiði þess sem hlutgerir þær. Þær fara að líta á sig sem hlut sem þær horfa stöðugt á með gagnrýnum augum. Aukin sjálfshlutgerving tengdist enn fremur lélegri líkamsímynd og óreglulegu mataræði,“ segir Herdís að lokum.