Skip to main content

Röntgenmyndir nauðsyn við dagleg störf tannlækna

Svanhvít Dröfn Sæmundsdóttir, MPH í lýðheilsuvísindum 

Svanhvít Dröfn Sæmundsdóttir tannlæknir gerði nýverið rannsókn á tannátu hjá hópi 12 og 15 ára barna og nýtti til þess gögn úr rannsókninni MUNNÍS frá árinu 2005. Tannáta er sjúkdómur í munnholi sem flestir þekkja eflaust betur undir nafninu tannskemmdir.

„Það var búið að finna þær lykiltennur sem nota má til greiningar á glerungseyðingu úr gögnum MUNNÍS og því var forvitnilegt að kanna hvort hægt væri að sýna fram á að fyrir hendi væru lykiltennur sem nota mætti til greiningar á tannátu. Með því að skoða gögnin gat ég séð hvaða tennur og fletir eru oftast með tannátu og hvort einhverjar tennur eða fletir tanna geti verið svokallaðar lykiltennur til greiningar á tannátu,“ segir Svanhvít um rannsóknina sem var lokaverkefni hennar til meistaraprófs í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands.

Svanhvít Dröfn Sæmundsdóttir

„Það var búið að finna þær lykiltennur sem nota má til greiningar á glerungseyðingu úr gögnum MUNNÍS og því var forvitnilegt að kanna hvort hægt væri að sýna fram á að fyrir hendi væru lykiltennur sem nota mætti til greiningar á tannátu."

Svanhvít Dröfn Sæmundsdóttir

Svanhvít skoðaði upplýsingar um tennur nærri 1.400 barna í rannsókninni. „Helstu niðurstöður eru þær að 6 ára jaxlar höfðu oftast fyllingu eða tannátu sem náði inn í tannbein hjá bæði 12 og 15 ára börnum en fast á hæla 6 ára jaxlanna fylgja 12 ára jaxlarnir. Skimun allra tanna með sjónrænni skoðun gefur ekki rétta mynd af tannheilsu einstaklingsins þannig að ekki er réttlætanlegt að benda á ákveðnar lykiltennur fyrir þannig skimun,“ segir Svanhvít enn fremur um niðurstöðurnar.

„Rannsóknin mín sýnir aftur á móti glöggt hversu miklu röntgenmyndir bæta við almenna sjónskimun tanna og undirstrikar nauðsyn þeirra við dagleg störf tannlækna. Myndræn framsetning á þeim tönnum sem eru í hættu og þeim blettum sem geta þróast yfir í tannátu, sem finna má í lokaverkefninu, getur einnig nýst tannlæknum við dagleg störf. Þar sést hvaða tennur og fletir eru í áhættu vegna tannátu en tannáta er stöðugt ferli sem alltaf er til staðar í munnholi,“ segir Svanhvít.

Leiðbeinandi: Inga B. Árnadóttir, prófessor við Tannlæknadeild