Skip to main content

Líðan tveggja stétta í kjölfar hrunsins

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og prófessor við Félags- og mannvísindadeild

„Við erum að skoða vinnufyrirkomulag og líðan starfsfólks fjármálafyrirtækja annars vegar og starfsfólks sveitarfélaga hins vegar. Bankarnir urðu fyrir miklum skelli í október 2008 eins og allir vita en kreppan snerti þessa tvo hópa á ólíkan hátt og á ólíkum tíma,“ segir Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og prófessor í félagsfræði. Hún vinnur að ofangreindri rannsókn ásamt þeim Ástu Snorradóttur, sem varði doktorsritgerð um efnið í lok árs 2015, og Hjördísi Sigursteinsdóttur, sem ráðgerir að verja sína doktorsritgerð 2017. Að auki skrifaði Sæunn Gísladóttir MA-ritgerð um málefnið.

„Niðurstöðurnar sýna meðal annars að líðan starfsfólks sveitarfélaganna sem vann í umönnunar- og menntageiranum versnaði stöðugt tveimur, þremur og fimm árum eftir fall bankanna á sama tíma og starfsfólkið upplifði meira álag og vaxandi óvissu. Vanlíðan starfsfólks fjármálafyrirtækjanna strax í kjölfar bankahrunsins var að jafnaði verri meðal þeirra sem héldu vinnunni en hinna sem misstu vinnuna, sem þykir afar sérstakt. Bæði í fjármálafyrirtækjunum og hjá sveitarfélögunum var líðanin verst þar sem samstarfsfólki hafði verið sagt upp,“ útskýrir Guðbjörg Linda.
 

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir

"Vanlíðan starfsfólks fjármálafyrirtækjanna strax í kjölfar bankahrunsins var að jafnaði verri meðal þeirra sem héldu vinnunni en hinna sem misstu vinnuna, sem þykir afar sérstakt."

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir

„Ég hef lengi fengist við rannsóknir á tengslum vinnufyrirkomulags og líðanar ýmissa starfshópa. Þegar bankarnir hrundu skapaðist einstakt tækifæri til að skoða hvaða áhrif atburður sem þessi, sem var nánast eins og katastrófa fyrir stóran hluta starfshópsins, hafði á vinnutengda líðan. Til samanburðar var áhugavert að skoða starfsfólk sveitarfélaganna sem vinnur að flestu leyti í tryggara starfsumhverfi en starfsfólk fjármálakerfisins en er í mjög nánum tengslum við fjölskyldur landsins vegna þeirra skyldna sem sveitarfélögin hafa.“

„Löngun mín til að skilja samhengi hlutanna og hinn flókna veruleika mannheima hvetur mig áfram í því að stunda rannsóknir. Gildi rannsókna er afar mikið því án þeirra ætti takmörkuð þekkingarþróun sér stað. Í þessum tilteknu rannsóknum öflum við til að mynda þekkingar á samspili vinnufyrirkomulags og líðanar starfsfólks; hvað hægt er að gera til að lágmarka vanlíðan og efla vinnutengda heilsu, jafnvel á tímum mikillar óvissu, sem er mikilvægt,“ segir Guðbjörg Linda að lokum.