Skip to main content

Leitar leiða við að greina taugahrörnunarsjúkdóma fyrr

Leitar leiða við að greina taugahrörnunarsjúkdóma fyrr - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Með hækkandi aldri þjóðarinnar er búist við því að heilabilun verði okkar stærsti langvinni sjúkdómur, sem dregur úr samfélagslegri virkni og kostar fjölskyldur og samfélag gríðarlegar upphæðir. Greining sjúkdóma er fyrsta skrefið í átt að lækningu eða meðferð og leitast rannsóknin við að hjálpa til við það.“ Þetta segir Lotta María Ellingsen, dósent við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands. Hún hefur lagt ofurkapp á rannsóknir sem snúa að læknisfræðilegri myndgreiningu til að finna fyrr merki um alvarlega heilasjúkdóma.

„Rannsóknin sem ég vinn að núna,“ segir hún, „snýst um þróun sjálfvirkra myndgreiningaraðferða til að finna lífmerki í byggingu heilans sem leitt gætu til betri og fyrri greiningar á taugahrörnunarsjúkdómum, sem m.a. valda heilabilun.“

Myndgreiningin byggist á sérhæfðum hugbúnaði og er smíði fyrstu frumgerðarinnar lokið. Hugbúnaðurinn merkir undirsvæði heilastofnsins á sjálfvirkan hátt. Lotta María segir að fyrstu niðurstöður bendi til þess að aðferðin sé afar nákvæm en vissulega sé nauðsynlegt að framkvæma frekari prófanir. Þess má geta að hugbúnaðurinn hlaut fyrstu verðlaun í Vísinda- og nýsköpunarkeppni Háskóla Íslands fyrr á árinu. Hér að neðan ræðir Lotta um möguleika hugbúnaðarins í stuttu myndbandi. 

Starfar líka við Johns Hopkins háskólann

Lotta María er einnig aðjunkt við Johns Hopkins háskólann í Bandaríkjunum. Þar er hún í samstarfi við lækna og vísindafólk að rannsaka sjúkdóminn NPH eða fullorðinsvatnshöfuð, sem er einn af örfáum heilabilunarsjúkdómum sem er meðhöndlanlegur við greiningu. John Hopkins er einn þekktasti háskóli heims á sviði heilbrigðisvísinda og er í tólfta sæti yfir þá háskóla sem hæst standa á heimsvísu miðað við Times Higher World University Rankings.

„Við þróuðum nýja myndgreiningaraðferð sem skilgreinir betur lífmerki í heilanum sem einkenna sjúkdóminn. Þetta kveikti áhuga minn á lífmerkjum í heilanum, sem mögulega gætu hjálpað til við greiningu annarra heilabilunarsjúkdóma á fyrri stigum en hægt er í dag. Snemmgreining er forsenda nýrra meðferðarmöguleika og lyfjaþróunar.“Lotta María segir að rannsóknir hafi sýnt að sjúkdómarnir sem hún einbeitir sér að í rannsókninni valdi einkennum í byggingu heilans sem röntgenlæknar geti oft greint. Á meðal þessara sjúdóma eru PSP, sem er ólæknandi taugahrörnunarsjúkdómur í mið- og framheila, og hrörnunarsjúkdómurinn MSA, en báðir þessir sjúkdómar flokkast til Parkison-plús sjúkdóma.

„Rannsóknin sem ég vinn að núna,“ segir Lotta, „snýst um þróun sjálfvirkra myndgreiningaraðferða til að finna lífmerki í byggingu heilans sem leitt gætu til betri og fyrri greiningar á taugahrörnunarsjúkdómum, sem m.a. valda heilabilun.“

Lotta María Ellingsen

„Ef við getum þróað sjálfvirka aðferð sem finnur þennan breytileika fyrr gæti það valdið byltingu í þróun meðferðamöguleika auk þess sem það yrði ákveðin sönnun þess að slíkar greiningaraðferðir virki. Það gæti leitt til uppgötvunar á nýjum og áður óþekktum lífmerkjum með svipuðum aðferðum,“ segir Lotta María.

Það þarf ekki að hefja neina sennu um gildi svona rannsóknar því hún gæti fætt af sér leiðir til að létta mörgum miklar þjáningar auk þess að draga úr kostnaði í heilbrigðiskerfum heimsins. Lotta María segir enda að rannsóknir skipti gríðarlega miklu máli fyrir samfélagið, þær leiði ekki einungis fram nýja þekkingu heldur byggi mikilvægan og sterkan grunn fyrir stofnun fyrirtækja.