Skip to main content

Kvennalistinn varð til af illri nauðsyn

Björn Reynir Halldórsson, doktorsnemi við Sagnfræði- og heimspekideild

Þrjár konur úr Samtökum um kvennalista náðu kjöri til Alþingis árið 1983 og hreyfingin átti fulltrúa á þingi allt til ársins 1999 þegar Samfylkingin varð til. Björn Reynir Halldórsson sagnfræðingur vinnur nú að doktorsrannsókn um stefnu Kvennalistans í umhverfis-, efnahags-, utanríkis- og stjórnkerfismálum og samspil þeirra við grundvallarhugmyndafræði hreyfingarinnar um reynsluheim kvenna. „Ég vildi ekki horfa eingöngu til þeirra málaflokka sem álitið er að konur hafi mestan áhuga á,“ segir Björn sem hyggst leiða í ljós hvort áherslur Kvennalistans hafi verið frábrugðnar hefðbundnum vinstri stefnumálum þótt þær sjálfar hafi ekki viljað skilgreina sig til hægri eða vinstri.

Björn horfir einnig til þess hvort stefna og áherslur hreyfingarinnar hafi mótast af samtímanum á Íslandi enda um mikið breytingaskeið að ræða í íslenskum stjórnmálum. Hann vonar að rannsókn á íslenskum stjórnmálum frá bæjardyrum Kvennalistans eigi eftir að varpa skýrara ljósi á eðli þeirra þá og þróun á nýrri öld. Þar horfir Björn m.a. til umhverfissjónarmiða og valddreifingar sem varla hafi náð máli aftur fyrr en eftir bankahrun.

„Það er engin tilviljun að Kvennalistinn spratt upp á nákvæmlega þessum tíma. Þær fóru af stað af illri nauðsyn.“

Björn Reynir Halldórsson

Björn segir konur hafa átt erfitt með að ná frama innan rótgróinna stjórnmálaflokka í því pólítíska landslagi sem Kvennalistinn reis úr þrátt fyrir uppgang kvenréttindahreyfingarinnar og sögulega áfanga í kvenréttindabaráttunni. „Það er engin tilviljun að Kvennalistinn spratt upp á nákvæmlega þessum tíma,“ segir Björn sem telur að þolinmæði kvenna hafi verið þrotin. „Þær fóru af stað af illri nauðsyn.“ Eins sé áríðandi að horfa til áhrifavalda hreyfingarinnar innan- og utanlands, þ. á m. Rauðsokkahreyfingarinnar sem mótaði hana mjög. Kvennalistinn greini sig þó frá öðrum kvennahreyfingum þar sem hann kom fulltrúum á þing.

„Ég valdi að rannsaka Kvennalistann af einskærri forvitni um innri byggingu hans og stefnuskrá sem væri raunhæft að taka mið af í samtímastjórnmálum,“ segir Björn. Það hafi jafnframt verið hreinasta tilviljun að hann hóf þessa rannsókn en brennandi áhugi sé mikilvægur til að leggja í jafnlangt og -strangt verk sem doktorsverkefni er.

Leiðbeinandi: Valur Ingimundarson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild.