Skip to main content

Konur hafi nú fyrst leyfi til þess að fórna barneignum fyrir frelsi

Konur hafi nú fyrst leyfi til þess að fórna barneignum fyrir frelsi - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Fæðingartíðni á Íslandi er í raun og veru í frjálsu falli,“ segir Sunna Símonardóttir, doktor í félagsfræði og nýdoktor við Háskóla Íslands. Hún leitar nú að mögulegum skýringum á lækkandi fæðingartíðni á Íslandi í yfirstandandi rannsókn sinni sem ber heitið „Frjósemisáætlanir og hegðun á Íslandi“.

Hver kona þarf að eignast 2,1 barn að meðaltali til þess að viðhalda fólksfjöldanum. Í dag er raunin sú að hver kona eignast um 1,7 börn að meðaltali. „Ef hlutfallið lækkar þýðir það í raun og veru að alltof fá börn eru að fæðast til að halda uppi framtíðarsamfélaginu — borga skatta og sjá um okkur þegar við verðum gömul. Það er áhyggjuefni í vestrænum heimi að fólk er ekki að eignast börn,“ segir Sunna.

Þessi þróun er þekkt í mörgum vestrænum löndum en Sunna segir að lengi vel hafi Ísland haft algjöra sérstöðu. „Það er að segja við eignuðumst enn þá fjölda barna en frjósemishlutfall annarra þjóða lækkaði.“ Hún segir að því hafi verið haldið fram að það væri að þakka góðu íslensku stuðningskerfi mæðra og barnafjölskyldna „en svo sjáum við núna það nákvæmlega sama gerast á Íslandi“.

Rannsóknir tengdar þessari þróun eru margar en að mati Sunnu eru þær ófullnægjandi þegar kemur að því að greina ástæðurnar fyrir lækkaðri fæðingartíðni. „Við vitum hvað er að gerast en við vitum lítið af hverju.“ Í rannsókninni mun hún leita svara við því hvers vegna fólk kýs að eignast færri börn en áður. „Þannig getur þessi rannsókn ef til vill nýst þeim sem hafa völdin til þess að móta stefnuna þegar kemur að öllum þessum samfélagslegu kerfum sem hjálpa okkur.“

Konur farnar að efast

Frá árinu 1987 hefur aldur frumbyrja hækkað úr 22 árum að meðaltali upp í 27 ára aldur. Sunna telur félagslegar ástæður liggja þar á bak við, ekki aukinn frjósemisvanda.

Umfjöllun fjölmiðla um málið stuðaði Sunnu. „Þessu var einhvern veginn stillt upp eins og konur væru ekki alveg að fatta að þær hefðu bara ákveðinn tíma til þess að eignast börn, eins og þær ætluðu að bíða þangað til þær yrðu 45 ára og síðan eignast þrjú börn,“ segir hún og heldur áfram: „Þetta stuðaði mig svolítið af því ég veit að konur eru ekki vitlausar og eru flestar bara mjög meðvitaðar um þessa líkamsklukku því það er endalaust verið að hamra á henni við okkur. Þess vegna langaði mig til þess að finna einhverja ástæðu fyrir þessari tilhneigingu án þess að nota einfaldar og ófullnægjandi útskýringar eins og að konur forgangsraði ekki rétt eða séu ekki nógu skynsamar.“

Sunna telur ástæðuna vera samspil margra þátta. Ungdómsárin séu farin að teygjast lengra inn í fullorðinsárin en áður. „Það er kannski augljóst svar en svo er það mín kenning líka að konur eru að uppgötva að hugmyndin um að við getum gert allt — við getum orðið hvað sem við viljum í vinnunni, við getum átt frábært fjölskyldulíf, við getum sinnt vinum og ættingjum, ræktað líkama og sál og átt glæsilegt heimili allt á sama tíma — sé ekki raunsæ. Konur eru farnar að efast um að það sé hægt.“ Nú fyrst hafi konur ef til vill leyfi til þess að fórna barneignum fyrir frelsi. 

„Þetta stuðaði mig svolítið af því ég veit að konur eru ekki vitlausar og eru flestar bara mjög meðvitaðar um þessa líkamsklukku því það er endalaust verið að hamra á henni við okkur. Þess vegna langaði mig til þess að finna einhverja ástæðu fyrir þessari tilhneigingu án þess að nota einfaldar og ófullnægjandi útskýringar eins og að konur forgangsraði ekki rétt eða séu ekki nógu skynsamar,“ segir Sunna um umfjöllun fjölmiðla um hækkun á aldri frumbyrja hér á landi.

Mæðrum kennt um ófarir bíómyndamorðingja

Doktorsritgerð Sunnu fjallaði um íslenska orðræðu tengda móðurhlutverkinu og hún telur að margt gæti betur farið þar. „Það er áhugavert að horfa á bíómyndir eða sjónvarpsþætti og taka eftir því þegar aðalpersónan er vond eða illmenni, þá er það oft vegna þess að móðir hans elskaði hann ekki nógu mikið eða of mikið. Við erum heltekin sem menning af því að móðirin sé allt.“

„Þessi orðræða á Íslandi um allt jafnréttið og hvað allt sé orðið frábært er villandi. Þá er horft fram hjá staðreyndum vegna þess að allar rannsóknir sýna fram á að foreldrahlutverkið beinist enn þá mjög að móðurinni.“ Ætlast sé til meira af mæðrum en feðrum. „Ég held við séum að burðast með það á Íslandi — að halda að við séum komin miklu lengra en við í raun erum.“

Sunna segir sams konar rannsóknir oft beinast aðeins að konum en ætlun hennar er að taka karla með inn í reikningsdæmið. Því tekur hún viðtöl við karla, konur og pör.

Aðspurð um frekari rannsóknir á þessu sviði segist Sunna eiga stóra drauma. „Ég sé þetta fyrir mér eins og legóhús og með því að átta mig á ástæðum lækkandi fæðingartíðni á Íslandi er ég komin með einn lítinn bita og svo byggi ég smátt og smátt ofan á það með fleiri legókubbum. Bæti þá við húsið og geri rannsóknina viðameiri.“

Sunna býst við því að rannsókninni ljúki vorið 2023.

Höfundur greinar: Marinella Arnórsdóttir, meistaranemi í ritlist