Skip to main content

Hvað einkennir Ísland?

Brynjar Þór Þorsteinsson, doktorsnemi við Viðskiptafræðideild

Ferðaþjónusta hefur bætt þjóðarhag Íslendinga með áþreifanlegum hætti og í raun  orðið til þess að á Íslandi hefur hagvöxtur verið með því mesta sem  mælst hefur í vestrænum þjóðríkjum á síðustu árum. Það er því mikilvægt að auka rannsóknir á þessum ört vaxandi atvinnuvegi sem hefur snarbreytt íslensku hagkerfi á innan við einum áratug.   

Þegar kemur að rannsóknum á ferðaþjónustu er gjarnan horft til viðhorfa ferðamanna enda skiptir það okkur miklu hver upplifun þeirra er af Íslandi. Þetta rannsakar einmitt doktorsneminn Brynjar Þór Þorsteinsson en hann leggur stund á nám í viðskiptafræði undir handleiðslu Þórhalls Guðlaugssonar, dósents við Viðskiptafræðideild. 

„Ég vil kanna viðhorf erlendra ferðamanna sem heimsækja okkur og kanna skynjun þeirra á ýmsum þáttum í tengslum við íslenska ferðaþjónustu og landið sjálft,“ segir Brynjar Þór sem einnig er lektor við Háskólann á Bifröst og hefur mikið fengist við markaðsmál og alþjóðaviðskipti í sínum rannsóknum. 

„Til stendur að spyrja einnig um viðhorf til annarra landa enda er einn tilgangur rannsóknarinnar að bera saman niðurstöðurnar á svokölluðu skynjunarkorti. Þar munu koma fram ýmsir aðgreinandi þættir Íslands í samanburði við önnur lönd,“ segir Brynjar Þór. 

Hann bætir því að með þessu sé hægt að leggja mat á fyrir hvað Ísland standi í hugum erlendra ferðamanna og hvaða eiginleikar standi upp úr sem sérstakir og aðgreinandi samanborið við samkeppnisþjóðir.

Þegar kemur að rannsóknum á ferðaþjónustu er gjarnan horft til viðhorfa ferðamanna enda skiptir það okkur miklu hver upplifun þeirra er af Íslandi. Þetta rannsakar doktorsneminn Brynjar Þór Þorsteinsson en hann leggur stund á nám í viðskiptafræði undir handleiðslu Þórhalls Guðlaugssonar, dósents við Viðskiptafræðideild. 

Brynjar Þór Þorsteinsson

Metur ímynd og hlut hennar í staðfærslu

Þegar kemur að greiningu markhópa fyrir áfangastaðinn Ísland er vel þekkt að sá hópur sem heimsækir Íslands er ekki einsleitur og hefur ólíkar þarfir og markmið. Brynjar Þór hefur komið að markhópagreiningu með öðrum fræðimönnum fyrir íslenska ferðaþjónustu og niðurstöður úr þeirri rannsókn eru m.a. hafðar til hliðjónar í doktorsverkefninu. 

„Ég nýti gögnin úr markhópagreiningunni til að kafa dýpra í viðfangsefnið en ég er að kanna ýmsa þætti í staðfærslu þjóðlanda og vel Ísland sem tilvik. Ég skoða meðal annars ímyndina og hlut hennar í staðfærslunni,“ segir hann.

Rannsóknir undirstaða nýrrar þekkingar

Viðfangefnið er Brynjari Þór mjög hugleikið enda liggur áhugi hans í markaðsfræði og vörumerkjastjórnun sem fléttast vel við ótvíræðan áhuga á ferðaþjónustu. Hann kveðst ekki vænta sérstakra niðurstaðna strax. „Þó má segja að tilgátan sé að einhverjir eiginleikar ímyndarinnar hafi breyst eða færst til. Nú er verið að hanna könnun sem verður vonandi lögð fyrir síðsumars og á haustmánuðum þessa árs,“ segir Brynjar Þór og hefur mikla trú á að vandaðar rannsóknir skili miklu til samfélagsins. „Rannsóknir eru undirstaða þekkingaröflunar í samfélögum allra þjóða og þar leika háskólar lykilhlutverk í að smíða ramma um þær.“

Hann segir doktorsrannsóknina sína helst þjóna því notagildi að meta hvort og hvernig þróun áfangastaða hafi áhrif á skynjaða ímynd yfir tíma. Einnig ætti hún að geta svarað því hvort og þá hvers konar áhrif breytt samsetning gesta hafi og af hverju. Reyna þannig að leggja mat á það hvort eins ör vöxtur eins og hér hefur verið raunin hafi áhrif. 

„Þá mætti nýta niðurstöður í ýmiss konar markaðsstarf og til að ákveða áherslur og þætti við þróun og uppbyggingu áfangastaða til framtíðar. Tilgangurinn er að vita meira í dag en í gær og enn meira á morgun.“