Skip to main content

Hringormurinn ljóti

Snorri Karl Birgisson, MS frá Matvæla- og næringarfræðideild 

Fiskur er gríðarlega mikilvæg útflutningsafurð fyrir Íslendinga og því áríðandi að gæðin séu ávallt eins mikil og nokkur er kostur. Vinnslu á fiski hefur fleygt gríðarlega fram undanfarin ár, m.a. með samvinnu atvinnulífs og rannsóknastofnana. Þar hafa vegið þungt uppgötvanir vísindamanna við Háskóla Íslands og Matís. Eitt helsta vandamál sem fyrirtæki í vinnslu bolfisks glíma nú við tengist hringormi en flestir sem borða fisk hafa einhvern tímann rekist á þetta ógeðfellda sníkjudýr á diskinum sínum.

„Hringormar hafa lengi verið mikil áskorun í vinnslu fisks og í gæða-, sölu- og markaðsmálum á afurðum úr fiski. Greining og hreinsun hringorma úr fiskflaki er enda mjög kostnaðarsöm og krefjandi vinna.“ Þetta segir Snorri Karl Birgisson sem vann rannsókn sem hafði það að markmiði að einfalda aðgreiningu hringorms frá fiskholdi. Snorri Karl bar saman samsetningu hringorma og þorskvöðva til að kanna hvort efnasamsetning á þessu tvennu væri ólík sem gæti auðveldað að greina hringormana frá fiskvöðvanum. „Þá væri kominn grunnur til að byggja á fyrir þróun á sjálfvirkri tækni til að greina hringorm í fiskflaki. Einnig rannsakaði ég lifun og þol hringorma við frystingu þar sem tekið var tillit til stærðar og líkamsbyggingar þeirra.“

Snorri Karl Birgisson

„Ég er mættur!“ æpir ormurinn þá á neytandann,“ segir Sigurjón. „Þegar neytandinn sér þennan laumufarþega tekur hann jafnan ljósmyndir og við vitum öll hversu auðvelt er að dreifa þeim á samfélagsmiðlum. Það er afskaplega vont fyrir viðskiptin.“ 

Snorri Karl Birgisson

Þótt hringormur sé fráleitt girnilegur vita fáir að hann er ekki í sjálfu sér óhollur þegar hann er dauður en lifandi getur hann reynst hættulegur komist hann í menn. „Hringormar og þorskflök voru í minni rannsókn með svipuð hlutföll í níu amínósýrum og innihéldu hvort tveggja töluvert magn af lífsnauðsynlegum amínósýrum,“ segir Snorri Karl en hann vann verkefnið undir stjórn Sigurjóns Arasonar, prófessors í matvælafræði við HÍ, og Magneu G. Karlsdóttur, verkefnisstjóra hjá Matís. Bæði hafa þau getið sér gott orð fyrir framúrskarandi rannsóknir á sviði sjávarfangs.

Sigurjón hefur ítrekað bent á hversu slæmar afleiðingar það getur haft þegar hringormur sleppur fram hjá næmum augum í vinnslunni. „Ég er mættur!“ æpir ormurinn þá á neytandann,“ segir Sigurjón. „Þegar neytandinn sér þennan laumufarþega tekur hann jafnan ljósmyndir og við vitum öll hversu auðvelt er að dreifa þeim á samfélagsmiðlum. Það er afskaplega vont fyrir viðskiptin,“ segir Sigurjón.

Snorri Karl segir að niðurstöður hans bendi til þess að hringormar séu frábrugðnir þorskvöðvanum hvað efnasamsetningu varðar. „Hamur hringorma er samsettur úr þykkum vegg sem gerir hringorminn ólíkan efnasamsetningu þorsks, sem er jákvæð vísbending um að finna megi tæknilega lausn við greiningu á honum í fiskflaki. Takist það getum við komið fram með lausnir sem leiða til umtalsverðs sparnaðar í fiskvinnslu ásamt því að auka öryggi afurðanna mjög mikið.“

Snorri Karl segir að verkefnið sýni eins og önnur á þessu sviði að rannsóknir séu lykillinn að samkeppnishæfni íslenskrar fiskvinnslu á alþjóðlegum mörkuðum.

Leiðbeinendur: Sigurjón Arason, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild, og Magnea G. Karlsdóttir, verkefnisstjóri hjá Matís