Skip to main content

Höfuðverkir og svefntruflanir

Hjálmar Þórarinsson, MS frá Lyfjafræðideild

Höfuðverkur er mjög tíður og varla til sú manneskja sem ekki hefur þjáðst af höfuðverkjum einhvern tímann á lífsleiðinni. Orsakirnar geta verið margbreytilegar en nú er nýlokið meistaraprófsrannsókn við Háskóla Íslands sem hafði það að markmiði að skoða samband svefntruflana og höfuðverkja á Íslandi.

„Auk þess að skoða algengi höfuðverkja og svefnvandamála vildum við kanna svefnlyfja- og verkjalyfjanotkun Íslendinga,“ segir Hjálmar Þórarinsson sem vann rannsóknina.

Hjálmar segist hafi valið viðfangsefnið sökum þess að hann hafi starfað í lyfjaverslun og tekið þar eftir því að Íslendingar notuðu svefnlyf í mun meira magni en nágrannaþjóðir okkar.

Að Hjálmars sögn hafa svefnraskanir verið rannsakaðar umtalsvert um allan heim og það sama megi segja um höfuðverki. „Rannsóknir sýna t.d. að of stuttur svefn tengist ýmiss konar heilsufarsvanda. Þekkt er einnig að ýmsir sjúkdómar hafa áhrif á gæði eða lengd svefns. Minna er aftur á móti um rannsóknir á því hvort samband sé á milli þess að hafa höfuðverk og þola svefntruflanir.“

Í rannsókninni notaði Hjálmar svör úr spurningalista sem á annað þúsund Íslendingar svöruðu í ársbyrjun 2015. Svörin voru hluti af þverfaglegri rannsókn á svefnklukku Íslendinga þar sem leitað var áhrifa stöðugs misræmis staðar- og sólarklukku á heilsufar Íslendinga.

„Rannsóknir sýna t.d. að of stuttur svefn tengist ýmiss konar heilsufarsvanda. Þekkt er einnig að ýmsir sjúkdómar hafa áhrif á gæði eða lengd svefns. Minna er aftur á móti um rannsóknir á því hvort samband sé á milli þess að hafa höfuðverk og þola svefntruflanir.“

Hjálmar Þórarinsson

„Ekki er hægt að segja til um það út frá niðurstöðum míns verkefnis hvort samband sé á milli höfuðverkja og svefntruflana og þyrfti að skoða það í stærra úrtaki til þess að eiga möguleika á að sjá marktækan mun ef hann er til staðar.“

Hjálmar segir að Íslendingar virðist glíma almennt meira við svefnvandamál en þjóðirnar næst okkur. „Algengi svefnleysis á Íslandi samkvæmt alþjóðlegum viðmiðunum er um 25 prósent hærra en í rannsóknum hjá öðrum þjóðum sem nota sömu viðmið. Algengi höfuðverkja hér er hins vegar svipað og í rannsóknum annarra þjóða. Hlutfallslega fleiri konur þjást af svefnleysi og eða höfuðverkjum hér en karlar en það er í samræmi við rannsóknir annarra þjóða.“

Leiðbeinendur: Lárus Steinþór Guðmundsson, dósent við Lyfjafræðideild, og Björg Þorleifsdóttir, lektor við Læknadeild.