Skip to main content

Heimsendir í háskerpu

Guðni Elísson, prófessor við Íslensku- og menningardeild

Þau eru mörg sérstæð námskeiðin í Háskóla Íslands. Eitt af þeim fjallar um ekkert minna en heimsendi frá ólíkum sjónarhornum.

„Hugmyndin um heimsslit hefur lengi verið miðlæg í menningunni og kannski aldrei eins miðlæg og núna,“ segir Guðni Elísson, prófessor í almennri bókmenntafræði, en hann ber ábyrgð á námskeiðinu. Í því munu þátttakendur skoða bæði menningarlegar birtingarmyndir endaloka og raunverulegar ógnir sem mannkyn og lífríkið allt standa frammi fyrir.

„Þessar endalokalýsingar eru líka misróttækar, ef þannig má að orði komast. Þær spanna allt frá tortímingu lífsins á jörðinni yfir í eyðingu þeirrar veraldar sem við þekkjum og lýsingu á lífi í gjörbreyttum heimi,“ segir Guðni.

Guðni Elísson

„Endalokanámskeiðið fjallar um heima og samfélög á ystu nöf, samfélög sem verða tortímingu að bráð og samfélög sem bjargast að hluta.

Guðni Elísson

Þegar Guðni er krafinn svars við því hvort við séum þegar á ystu nöf á jörðinni kafar hann í efni námskeiðsins. „Endalokanámskeiðið fjallar um heima og samfélög á ystu nöf, samfélög sem verða tortímingu að bráð og samfélög sem bjargast að hluta. Sumar þessara endalokafrásagna eru aðeins forvitnilegar í hinu menningarlega samhengi vegna þess að ógnin sem þær lýsa er fjarlæg og stundum fráleit. En svo eru til svið innan endalokaumræðunnar sem standa okkar veruleika nær, eins og t.d. endalokafrásagnir sem snúa að veiruhernaði, kjarnorkustríðum og loftslagsbreytingum.“ Guðni segir að ef við horfum aðeins til síðasta þáttarins, umræðunnar um loftslagsbreytingar, sé ástandið þar alvarlegra en flestir geri sér grein fyrir og tíminn sem við höfum til aðgerða afskaplega naumur.

„Vandinn verður stærri eftir því sem við drögum lengur að bregðast við vánni. Ætlum við að búa í breyttum heimi, því að slíkt er óumflýjanlegt úr því sem komið er, eða ætlum við að kollvarpa öllu og þurrka út stóran hluta vistkerfisins? Á þeim tíma sem liðið hefur síðan loftslagsumræðan fór að festa sig í sessi hefur losun koltvísýrings farið jafnt og þétt vaxandi og aldrei verið meiri en síðustu fimm árin.“

En af hverju ætli menn hafi svona mikinn áhuga á endalokum í skáldverkum og kvikmyndum? „Áður en hægt er að byrja að svara svona spurningu verður að spyrja fjölda annarra spurninga, þar á meðal: Hefur heimsslitafrásögnin fyrst og fremst afþreyingargildi? Hversu fjarstæðukennd er heimsslitafrásögnin? Á hún sér trúarlegar eða vísindalegar rætur? Er spánni ætlað að hafa fyrirbyggjandi gildi eða er mikilsvert að spáin rætist? Þegar búið er að skilgreina inntak frásagnarinnar má fara að velta fyrir sér hvötum viðtakandans,“ segir Guðni. Það er nákvæmlega það sem hann ætlar að gera með nemendum sínum í þessu áhugaverða námskeiði.