Skip to main content

Einelti ógnar heilsu, líðan og gengi í lífinu

Einelti ógnar heilsu, líðan og gengi í lífinu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vísindavefurinn segir að einelti sé ofbeldi þar sem einn eða fleiri ráðast að einum og beita hann ofbeldi yfir lengri tíma. Sem betur fer hefur mörgum samfélögum orðið ágengt í baráttunni gegn þessari samfélagsskömm á síðustu árum því rannsóknir í Evrópuríkjum benda til þess að dregið hafi úr einelti meðal skólabarna undanfarin ár. 

Jafnframt hefur komið í ljós að tíðni eineltis á Íslandi er lægri en almennt gerist í þessum ríkjum. Engu að síður er einelti eitt það þarfasta sem hægt er að rannsaka í mannlegri hegðun með það fyrir augum að draga úr því eða hreinlega eyða með öllu. 

Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í heilsufélagsfræði við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, vinnur ásamt öðrum að rannsókn sem miðar að því að kortleggja útbreiðslu eineltis meðal íslenskra grunnskólabarna og athuga tengsl eineltisins við heilsufar þolendanna. „Tilefni rannsóknarinnar er fjöldi athugana meðal barna og ungmenna sem benda til alvarlegra afleiðinga eineltis fyrir þolendur, bæði til skemmri og lengri tíma,“ segir Rúnar en rannsóknin er í hópi nokkurra íslenskra sem ætlað er að auka skilning á útbreiðslu og ástæðum eineltis og styrkja forvarnarstarf.

Rúnar segir að til afar mikils sé að vinna því eineltið geti bitnað á andlegri og líkamlegri heilsu þolendanna til mjög langs tíma, það geti aukið hættu á félagslegri einangrun og leitt til lakara námsgengis innan skólakerfisins. „Fyrirbygging eineltis meðal grunnskólabarna er því afar mikilvægt lýðheilsumál,“ segir hann. „Í húfi er ekkert minna en heilsa, líðan og gengi einstaklinga í lífinu til skemmri og lengri tíma. Árangur er háður góðu samstarfi heimila, skóla og heilsugæslu, bæði til að fyrirbyggja að eineltið eigi sér stað og eins til að grípa í taumana á fyrri stigum áður en eineltið nær að skaða líf og heilsu þolendanna.“

„Þá sýna rannsóknir okkar að einelti hefur umtalsverð og víðtæk tengsl við lakara heilsufar. Þolendur greina oftar en aðrir frá þunglyndi, svimaköstum, svefnörðugleikum og tíðum líkamlegum verkjum og meta heilsu sína almennt mun lakar en þeir sem ekki þurfa að þola einelti,“ segir Rúnar Vilhjálmsson. MYND/Kristinn Ingvarsson

Rúnar Vilhjálmsson

Sálræn og líkamleg aðför gerð að sex prósentum skólabarna 

Rúnar segir að það sé út af fyrir sig fagnaðarefni að sjá að dregið hafi úr einelti og að tölur hér séu lægri en í ýmsum löndum sem við berum okkar saman við.  „Höfum samt í huga,“ segir Rúnar, „að afleiðingar eineltis fyrir einstaka þolendur minnka ekki þótt færri verði fyrir því.“ 

Þetta er athyglisvert hjá Rúnari því hvert eitt tilvik getur haft hrikalegar afleiðingar. Þótt ástandið sé þannig betra hér en víða í Evrópu þá sýna niðurstöður rannsókna Rúnars og félaga að tæp sex prósent íslenskra skólabarna í 6., 8. og 10. bekk hafi orðið fyrir líkamlegri eða sálrænni aðför eða aðkasti frá jafnöldrum. Niðurstöðurnar sýna að þetta hafi átt sér stað tvisvar til þrisvar sinnum eða jafnvel oftar í hverjum mánuði. 

„Tíðnin er þó ólík milli hópa, en nemendur sem eru yngri, búa hjá einstæðum foreldrum, eiga foreldra af erlendum uppruna eða búa á landsbyggðinni verða frekar fyrir einelti en aðrir nemendur,“ segir Rúnar.  

Einelti er með tengsl við lakara heilsufar

„Þá sýna rannsóknir okkar að einelti hefur umtalsverð og víðtæk tengsl við lakara heilsufar. Þolendur greina oftar en aðrir frá þunglyndi, svimaköstum, svefnörðugleikum og tíðum líkamlegum verkjum og meta heilsu sína almennt mun lakar en þeir sem ekki þurfa að þola einelti.“

Ekki þarf að efast um samfélagslegt gildi þessarar rannsóknar en Rúnar segir að athygli veki einnig mikil verkjalyfjanotkun meðal þolenda eineltis, sem ekki skýrist eingöngu af verkjunum sjálfum.