Skip to main content

Bíómyndirnar hans Balta

Kjartan Már Ómarsson, doktorsnemi við Íslensku- og menningardeild

Baltasar Kormákur er án efa þekktasti leikstjóri Íslendinga um þessar mundir og jafnframt einn sá afkastamesti. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að fyrsta leikna kvikmyndin í leikstjórn hans, 101 Reykjavík, kom út um aldamótin en Baltasar hefur frá þeim tíma leikstýrt og framleitt á annan tug kvikmynda í fullri lengd og tekist að skapa sér gott orðspor í Mekka kvikmyndanna, Hollywood.

Þessi mikli árangur Baltasars hefur orðið Kjartani Má Ómarssyni innblástur að doktorsrannsókn í almennri bókmenntafræði en þar rýnir hann í myndir leikstjórans kunna. „Megináherslur eru á frásagnarfræðilega endursköpun hans á íslensku kvikmyndinni eins og hún er skilgreind með hliðsjón af alþjóðlegum kvikmyndastraumum, en fræðilegar forsendur eru kenningar í greinafræðum og skilgreiningar á heimsbíóinu. Ég er að skoða afrakstur þess núnings sem á sér stað milli erlendra og innlendra menningarstrauma í kvikmyndalegum endurritunum Baltasars,“ útskýrir Kjartan.

Kjartan Már Ómarsson

„Ég er að skoða afrakstur þess núnings sem á sér stað milli erlendra og innlendra menningarstrauma í kvikmyndalegum endurritunum Baltasars.“

Kjartan Már Ómarsson

Hugmyndin að verkefninu er að sögn Kjartans komin frá Birni Þór Vilhjálmssyni, lektor í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands, en rannsóknin á m.a. að vera svar við skorti á fræðilegri umfjöllun um íslenskar kvikmyndir, kvikmyndaleikstjóra og kvikmyndamenningu undanfarin ár. „Nú er kominn áratugur síðan sprenging varð í kvikmyndafræðiútgáfu með bókunum sem Guðni Elísson ritstýrði, t.d. Heimi kvikmyndanna, Áföngum í kvikmyndafræðum og ritröðinni Sjöunda listgreinin. Nú þarf að halda þeirri vinnu áfram,“ segir Kjartan.

Með því að rýna í myndir Baltasars vonast Kjartan því til að varpa ljósi á þær breytingar sem hafa orðið í íslenskri kvikmyndagerð á nýrri öld. „Þegar litið er til kvikmyndagerðar á Íslandi frá og með síðustu aldamótum má greina hvernig aukinn þverþjóðleiki íslensks samfélags kallar fram spurningar sem snúa að samspili ólíkra menningarheima. Kvikmyndir eru ekki lengur framleiddar í lokuðu kerfi heldur í menningarlega og samfélagslega fjölbreyttu umhverfi. Kvikmyndir Baltasars eru tilvaldar til þess að svara þessum spurningum líkt og kvikmyndamenningin gerir þeim skil,“ segir hann.

Rannsóknin hófst haustið 2016 og allra fyrstu niðurstöður kynnti Kjartan á ráðstefnunni Noir in the North í nóvember. „Lokamarkmiðið er að gefa út viðamikla en aðgengilega bók sem verður einnig þýdd á ensku. Þannig má nýta hana til frekari rannsókna, kennslu og til að færa þekkingu þekkingu um íslenska kvikmyndamenningu til annarra málsvæða,“ segir Kjartan að endingu.

Leiðbeinandi: Guðni Elísson, prófessor við Íslensku- og menningardeild.