Skip to main content

Aspirín gegn meðgöngueitrun

Aspirín gegn meðgöngueitrun - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Aspirín er að mínu mati eitt merkilegasta lyf læknisfræðinnar. Það hversu fjölbreytta virkni það hefur og hvernig ólík virkni þess hefur smám saman verið uppgötvuð í gegnum árin er sannarlega ótrúlegt,“ segir Helga Helgadóttir, lektor við Lyfjafræðideild HÍ, sem hefur í rannsóknum sínum beint sjónum sérstaklega að því hvernig aspirín getur komið í veg fyrir meðgöngueitrun hjá barnshafandi konum.

Aspirín hefur í gegnum tíðina verið notað gegn ýmsum kvillum og sjúkdómum og er enn í dag eitt mest notaða lyfið í heiminum að sögn Helgu. „Virkni þess spannar allt frá hefðbundnum verkjastillandi og bólgueyðandi áhrifum yfir í að vera fyrirbyggjandi meðferð gegn hjarta- og æðasjúkdómum. Nýlega er byrjað að nota það fyrirbyggjandi á áhættumeðgöngum til að koma í veg fyrir eða draga úr alvarleika meðgöngusjúkdóma en það lækkar blóðþrýsting hjá barnshafandi konum og dregur úr líkum á vaxtarskerðingu fósturs, meðgönguháþrýstingi og snemmbúinni meðgöngueitrun,“ segir Helga.

Tíu milljónir þjást árlega af meðgöngueitrun

Hún bendir hins vegar á að þrátt fyrir að aspirín hafi verið notað þegar um áhættumeðgöngu er að ræða hafi verkunarmáti þess í meðgöngueitrun ekki verið þekktur. „Markmið þessa verkefnis sem ég vann og var hluti af doktorsverkefni mínu var að kanna hvort hægt væri að útskýra verkunarmáta aspiríns og þá hvernig það getur verndað konur gegn meðgöngueitrun,“ útskýrir Helga sem lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands síðla árs 2020 undir leiðsögn Sveinbjörns Gizurarsonar, prófessors við Lyfjafræðideild.

Það er sannarlega til mikils að vinna að finna leiðir til að koma í veg fyrir meðgöngueitrun því sjúkdómurinn leggst á u.þ.b. 10 milljónir barnshafandi kvenna árlega í heiminum. Hann er ein algengasta orsök mæðradauða á heimsvísu og dregur um 76 þúsund konur til dauða árlega. „Meðgöngueitrun er einnig talin valdur að um 2,6 milljónum fyrirburafæðinga á ári og áætlað er að u.þ.b. 500.000 börn deyi árlega vegna sjúkdómsins. Þá eru konur og börn þeirra kvenna sem fá meðgöngueitrun í aukinni hættu á að þróa ýmsa fylgikvilla, s.s. hjarta- og æðasjúkdóma, offitu og sykursýki síðar á lífsleiðinni. Mikilvægt er að skilja verkunarmáta aspiríns þannig að hægt sé að bæta fyrirbyggjandi meðferð við meðgöngueitrun inn sem ábendingu um notkun lyfsins til að tryggja að sem flestar konur á heimsvísu fái viðeigandi fyrirbyggjandi meðferð, séu þær metnar í áhættu á að þróa með sér meðgöngueitrun,“ bendir Helga á.

Helga, sem er að hefja sinn vísindaferil, segir aðspurð að áhugi hennar í rannsóknum liggi fyrst og fremst í klínískum rannsóknum en hún hefur komið að og stýrt þróun lyfjaforma og framkvæmd klínískra prófana á lyfjum, m.a. hjá sprotafyrirtækinu Capretto ehf. „Þá hef ég alveg sérstakan áhuga á meðgöngutengdum sjúkdómum, þá sér í lagi þeim sem eiga upptök sín í fylgjunni, eins og er í tilfelli meðgöngueitrunar,“ segir Helga sem reiknar með að halda áfram rannsóknum á því sviði.  

Helga Helgadóttir

Aspirín hefur öflug æðavíkkandi áhrif

Í rannsóknunum, sem fóru fram bæði við Háskólann í Calabria á Ítalíu, Háskóla Íslands og Landspítala, skoðaði Helga áhrif aspiríns í þunguðum eða óþunguðum rottum annars vegar og barnshafandi konum hins vegar. „Slagæðar úr legi og meltingarvegi á 12-14 vikna gömlum rottum voru einangraðar og áhrif aspiríns á æðarnar skoðaðar með svokallaðri arteriograph-aðferð. Rotturnar voru ýmist óþungaðar, 14 daga eða 20 daga þungaðar en full meðganga hjá rottum er um 21-22 dagar. Rannsóknirnar á dýrunum sýndu að lyfið hafði bein æðavíkkandi áhrif og jafnframt að áhrifin voru háð æðaþelinu, en verkunarmátinn í æðum úr legi og meltingarvegi var ólíkur. Niðurstöður dýratilraunanna sýndu einnig að næmi æða fyrir aspiríni var breytilegt eftir því hvort rotta var óþunguð, 14 daga þunguð eða 20 daga þunguð. Þær upplýsingar eru mikilvægar og styðja það sem hefur verið sýnt fram á í rannsóknum að mikilvægt er að hefja meðferð með aspiríni snemma á meðgöngu, a.m.k. fyrir 16. viku meðgöngu. Ef meðferð hefst eftir þann tíma hefur aspirín hverfandi áhrif,“ segir Helga. 

Eftir að niðurstöður dýratilrauna lágu fyrir var ákveðið að skoða þetta einnig í legslagæðum hjá barnshafandi konum sem voru komnar 11-13 vikur á leið. Þær rannsóknir fóru fram á Landspítalanum í góðu samstarfi við fæðingarlækna þar á bæ. „Niðurstöður sýndu að aspirín hefur áhrif á viðnám í æðunum, en frekari rannsókna er þörf til að staðfesta það enn frekar“, segir Helga um niðurstöður rannsókna sinna.

Með því að sýna fram á að aspirín hafi bein útvíkkandi áhrif á æðar og með því að lýsa því betur hvernig lyfið verkar hafa Helga og samstarfsfólk með rannsóknum sínum lagt frekari vísindalegan grunn að notkun aspiríns í þeim tilvikum þar sem konur eru í áhættu að fá meðgöngueitrun.

Helga, sem er að hefja sinn vísindaferil, segir aðspurð að áhugi hennar í rannsóknum liggi fyrst og fremst í klínískum rannsóknum en hún hefur komið að og stýrt þróun lyfjaforma og framkvæmd klínískra prófana á lyfjum, m.a. hjá sprotafyrirtækinu Capretto ehf. „Þá hef ég alveg sérstakan áhuga á meðgöngutengdum sjúkdómum, þá sér í lagi þeim sem eiga upptök sín í fylgjunni, eins og er í tilfelli meðgöngueitrunar,“ segir Helga sem reiknar með að halda áfram rannsóknum á því sviði.