Skip to main content

Áhættuþættir á meðgöngu og einhverfa

Elísabet Þórðardóttir, doktorsnemi í lýðheilsuvísindum

Elísabet Þórðardóttir, doktorsnemi í lýðheilsuvísindum, rannsakar um þessar mundir tengsl einhverfurófsröskunar við áhættuþætti á meðgöngu og í fæðingu. „Orsakir einhverfu má oft rekja til flókins samspils erfða og umhverfis og áhrif umhverfisþátta á þroska barna eru mest á fósturskeiði,“ segir hún.

Elísabet hefur um árabil starfað sem sálfræðingur og hefur unnið mikið með einhverfu. „Þess vegna lá beint við að ganga til samstarfs við Vilhjálm Rafnsson og Evald Sæmundsen, leiðbeinendur mína, sem hafa um nokkurt skeið undirbúið rannsóknir á þessu sviði.“

Elísabet segir að markmið rannsóknarinnar sé að skoða hvort tengsl séu á milli lengdar þess tímabils sem líður frá fæðingu eldra systkinis og getnaðar þess næsta með tilliti til einhverfurófsröskunar. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) ráðleggur að tvö ár líði á milli fæðingar barns og getnaðar þess næsta til að draga úr líkum á neikvæðum afleiðingum fyrir móður, barn og fóstur.
 

Elísabet Þórðardóttir

Markmið rannsóknarinnar er að skoða hvort tengsl séu á milli lengdar þess tímabils sem líður frá fæðingu eldra systkinis og getnaðar þess næsta með tilliti til einhverfurófsröskunar. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) ráðleggur að tvö ár líði á milli fæðingar barns og getnaðar þess næsta til að draga úr líkum á neikvæðum afleiðingum fyrir móður, barn og fóstur.

Elísabet Þórðardóttir

Elísabet aflaði upplýsinga um einstaklinga með einhverfurófsröskun úr skrá Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins og eftir samkeyrslu við Fæðingarskrá reyndust 1.655 með slíka röskun vera fæddir á Íslandi á árabilinu 1982 og 2012. Fimm sinnum fleiri einstaklingar voru svo valdir í viðmiðunarhóp í rannsókninni og einnig sammæðra systkini beggja hópa.

„Tölfræðileg úrvinnsla er stutt á veg komin en við sjáum að meðal barna með einhverfuröskun eru drengir 3,15 sinnum líklegri en stúlkur til að greinast með röskunina. Þá reynast börn með röskunina einnig hafa skorað lægra á Apgar-kvarðanum við fæðingu en hann er notaður til að meta heilsu barns eftir fæðingu. Þau eru enn fremur oftar léttburar en viðmiðunarhópurinn. Við sjáum einnig að meðalaldur mæðra beggja hópa er sambærilegur en við nánari skoðun eru mæður barna með einhverfurófsröskun annars vegar yngri og hins vegar eldri en mæður viðmiðunarhóps,“ segir hún.

Elísabet telur að rannsóknin muni auka þekkingu á þessu sviði og geti nýst í stefnumótun og ráðgjöf tengdri lýðheilsumálum.

Leiðbeinendur: Vilhjálmur Rafnsson, prófessor emeritus við Læknadeild, og Evald Sæmundsen, klínískur dósent og sviðsstjóri rannsóknasviðs Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.