Skip to main content

Afkoma þorsksins í aldanna rás

Steven Campana, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild

„Hugmyndin er að þróa lengstu og nákvæmustu skrá yfir vöxt og hitastig sem til er fyrir nokkra tegund sjófiska en rannsóknin sem ég vinn nú að byggist á einstæðum aldagömlum söfnum stöðusteina eða kvarna úr tveimur stærstu stofnum þorsks í Atlantshafi.“

Þetta segir Steven Campana, prófessor í sjávarlíffræði við Háskóla Íslands. Stöðusteinar eða kvarnir sem Campana notar við rannsóknir sínar eru beggja vegna í hauskúpu allra beinfiska, í neðri hluta heilans. Stöðusteinarnir hafa þá náttúru að mynda árhringi líkt og tré.

„Súrefnissamsætur í þessum hringjum segja okkur nokkurn veginn hvar fiskurinn hélt sig og hvert hitastig sjávarins var á þeim slóðum. Þannig má lesa ævisögu fisksins nákvæmlega úr stöðusteininum.“

Campana segir að upplýsingarnar um vöxt og hitastig úr stöðusteinunum verði svo tengdar við langtímaþróun í íslenska þorskstofninum og sömuleiðis við þorskstofninn í Norðaustur- Atlantshafi.

„Við munum nota vísitölur um þróun hitastigs og loftslags gegnum aldirnar sem hafa verið skilgreindar í skeljum sem lifa á landgrunni Íslands og Noregs. Við munum jafnframt nýta spár um hafstrauma til að greina hvaða aðstæður kunna að hafa áhrif á stofnstærð þorsks á skala sem nær yfir mun lengri tíma en þau líkön sem gerð hafa verið fyrir aðrar tegundir sjófiska. Þess vegna munu niðurstöður verkefnisins gefa mynd af þróun botnfiskstofna sem hefur einfaldlega ekki verið mögulegt fyrr.“

Campana segist lengi hafa haft áhuga á stöðusteinum og verið með í að þróa þá sem eitt helsta tækið til að rannsaka fiska. „Stöðusteinasafnið á Íslandi er fyrsta flokks og ég er yfir mig ánægður að fá tækifæri til að kanna það og afhjúpa leyndardóma þess.“

Þetta verkefni Campana er gríðarlega metnaðarfullt en hann segir að niðurstöður úr því gætu ekki einungis stutt við mat og nýtingu á tveimur af stærstu og verðmætustu botnfiskstofnum heims heldur gæti það orðið grundvöllur fyrir yfirgripsmikla spá um loftslagsbreytingar í vistkerfum hafsins í öllu Norðaustur-Atlantshafi.

Ekki þarf að fjölyrða um það hversu mikill fengur það er fyrir Íslendinga og Háskóla Íslands að njóta krafta Steven Campana en hann er með virtustu vísindamönnum heims á sviði rannsókna á bol- og brjóskfiski. Fram til ársins 2015 var hann mjög hátt settur vísindamaður við Bedford-haffræðistofnunina í Kanada. Þar starfaði hann í röska þrjá áratugi sem yfirmaður rannsókna á sviði stöðusteina auk þess að stýra hákarlarannsóknum.

„Ég stýrði virku rannsóknarstarfi á breytileika í stofnum hákarla og annarra fisktegunda og var áherslan á sérstaka þróun nýrrar tækni til aldursgreiningar og við stofngreiningar. Auk þess vann ég við þróun á nýrri tækni til fylgjast með ferðum fiska. Nú þegar ég er orðinn prófessor við Háskóla Íslands mun ég halda áfram rannsóknum mínum á þessum sviðum, nema með meiri áherslu á Ísland og Evrópu.“

„Ég stýrði virku rannsóknarstarfi á breytileika í stofnum hákarla og annarra fisktegunda og var áherslan á sérstaka þróun nýrrar tækni til aldursgreiningar og við stofngreiningar. Auk þess vann ég við þróun á nýrri tækni til fylgjast með ferðum fiska. Nú þegar ég er orðinn prófessor við Háskóla Íslands mun ég halda áfram rannsóknum mínum á þessum sviðum, nema með meiri áherslu á Ísland og Evrópu.“

Steven Campana

Campana er mjög ánægður á Íslandi og segist hreinlega elska að stunda rannsóknir hér. „Rannsóknartækifærin eru fjölbreytt og framúrskarandi og fjármögnunin er í mjög góðu lagi þegar fólksfjöldi hér er tekinn inn í myndina. Það mikilvægasta er þó að vistkerfi hafsins umhverfis Ísland gefur mikið af sér og hér eru mjög verðmæt fiskimið. Þetta þýðir að rannsóknarniðurstöður hafa mikla möguleika á að bæta íslenska hagkerfið ásamt því að treysta stöðu vísindanna.“

Steven Campana er þekktur fyrir að liggja ekki á skoðunum sínum þegar kemur að því að skýra mikilvægi rannsókna í hverfulum heimi. „Það þarf einungis að hlusta á sumar þeirra valkvæðu fullyrðinga sem ákveðnir áberandi leiðtogar láta út úr sér til að átta sig á mikilvægi þess að öðlast nákvæma og áreiðanlega mynd af heiminum sem við byggjum. Vísindin eru vettvangur þar sem sjónarhornið er nákvæmt og hlutlægt og það er óháð skammtímasjónarmiðum og stjórnmálaskoðunum. Rannsóknir gera okkur kleift að skilja líf okkar, umhverfi og alheiminn betur og þær bæta oft líf okkar. Persónulegar skoðanir og pólítísk ósannindi munu aldrei leiða til aukins skilnings á neinu.“