Af hverju ertu að spila meidd(ur)? | Háskóli Íslands Skip to main content

Af hverju ertu að spila meidd(ur)?

Silja Runólfsdóttir, MA frá Félags- og mannvísindadeild 

„Rannsóknin mín snerist um viðhorf til meiðsla í fótbolta á Íslandi og þess að spila meiddur,“ segir Silja Runólfsdóttir um meistaraverkefni sitt í félagsfræði en hún lauk námi vorið 2017.

Silja byggði rannsókn sína á viðtölum við knattspyrnufólk á Íslandi og í ljós komu nokkur ríkjandi þemu. Eitt þeirra, sem greina mátti í gegnum öll viðtölin, var álag. „Fótboltamenn eru mjög ungir þegar þeir eru farnir að finna fyrir álagi og byrja mjög snemma að spila með mörgum flokkum í einu. Ég talaði við eina sem lenti í ofþjálfun í fjórða flokki. Þá var hún að spila með sér eldri iðkendum, alla leiki með sínum flokki og alla leiki með flokknum fyrir ofan. Það endaði með því að hún sofnaði á hliðarlínunni í einum leik,“ segir Silja.

Silja Runólfsdóttir

„Þetta er algjörlega sérumhverfi sem margir, sem eru ekki innan íþrótta, skilja ekki. Ef þú ert veikur með flensu þá hringirðu þig inn veikan í vinnunni en það er ekki þannig í íþróttum."

Silja Runólfsdóttir

Einnig áttu allir leikmennirnir sem Silja talaði við það sameiginlegt að finna á einhverjum tímapunkti fyrir pressu. „Þá er það pressa frá þjálfara og pressan sem þú finnur hjá sjálfum þér fyrir því að þú þurfir að standa þig. Það kom út í æfingaálagi líka. Einn sem ég talaði við fór í einkaþjálfun til þess að styrkja sig og það endaði með því að hann þurfti að fara í aðgerð, bara af því að hann var búinn að æfa of mikið og vitlaust.“

Silja segist vonast til að rannsóknin veki fólk til umhugsunar um umhverfið sem íþróttamenn eru í. „Þetta er algjörlega sérumhverfi sem margir, sem eru ekki innan íþrótta, skilja ekki. Ef þú ert veikur með flensu þá hringirðu þig inn veikan í vinnunni en það er ekki þannig í íþróttum. Það hefur aukist gríðarlega að 14 til 18 ára krakkar séu að glíma við meiðsli og það er ekki eðlilegt. Leikmenn eiga ekki að þurfa að hugsa að það sé bara næsti leikur sem skipti máli og vera alveg sama um líkamann sinn. Það er í lagi að vera frá í fjórar vikur vegna meiðsla og jafna sig 100 prósent. Við viljum halda íþróttafólki sem lengst innan íþróttarinnar,“ segir hún að endingu.

Leiðbeinandi: Viðar Halldórsson, lektor við Félags- og mannvísindadeild.