Sóley í beinu streymi frá Háskólatorgi | Háskóli Íslands Skip to main content

Sóley í beinu streymi frá Háskólatorgi

Sóley í beinu streymi frá Háskólatorgi - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
24. febrúar 2021 12:15 til 12:45
Hvar 

Háskólatorg

Á netinu

Nánar 
Tónleikarnir verða í beinu streymi

Tónlistarkona Sóley kemur fram ásamt fullskipaðri sveit á næstu Háskólatónleikum sem sendir verða út í beinni útsendingu frá Háskólatorgi miðvikudaginn 24. febrúar kl. 12.15.

Hér verður hægt að fylgjast með beinu streymi frá tónleikunum.

Háskólatónleikaröðinni var ýtt úr vör í endaðan október á síðasta ári og nú þegar hafa Mikael Máni og sveit hans og hljómsveitirnar Dymbrá, Umbra og Kælan mikla troðið upp við góðan orðstír og vel það, allar í beinni útsendingu.

Það er okkur því mikill heiður að kynna næstu tónleika en það verður sjálf Sóley sem mun koma fram ásamt fullskipaðri sveit. Þessi listakona steig fullmótuð fram árið 2010 með stuttskífunni Theater Island og náði fljótlega fótfestu á erlendri grundu sökum einstakrar listrænnar sýnar. Plötur hennar hafa komið út á alþjóðamarkaði, hún hefur haldið tónleika víða um heim og á sér harðsnúinn hóp aðdáenda víða um lönd.

Tónlist og tónleikar Sóleyjar gleymast engum sem á hlýða. Hér er brot úr dómi um téða stuttskífu sem rammar mátt og meginn þessarar stórkostlegu listakonu fullkomlega:
„...dimm en um leið sakleysisleg, töfrum bundin og ævintýraleg; einmanaleg en upplífgandi í senn. Ég veit að þetta kann að hljóma upphafið og klisjukennt en svona er þetta bara! Tilfinningarnar fara í rúss.“

Allt þetta mun svo fram streyma, í orðsins fyllstu merkingu, frá Háskólatorgi hvar lífæð háskólasamfélagsins slær. Hliðarsalurinn Litla-Torg verður nýttur undir þessa töfrum bundnu stund þann 24. febrúar og hefjast leikar kl. 12.15.

Tónleikunum verður nefnilega streymt í ljósi yfirstandandi samfélagshamlanna og salurinn verður tómur utan tæknifólks og tónlistarmanna. Hægt verður að horfa á beint en einnig að njóta síðar í upptökuformi. Öll velkomin og aðgangur gjaldfrjáls.

Um Háskólatónleikaröðina
Um áratugabil, og raunar í hálfa öld, hefur það verið hefð í Háskóla Íslands að standa fyrir Háskólatónleikum. Um mánaðarlega viðburði er að ræða, á haust- og vorönn, og fara þeir fram í byggingum háskólans.

Nýr umsjónarmaður tónleikaraðarinnar og listrænn stjórnandi er dr. Arnar Eggert Thoroddsen og segist hann styðjast við slagorðið „Háskóli fyrir alla - Tónlist fyrir alla“ á yfirstandandi vetri. Fólk geti búist við tónlist sem tilheyri alls kyns geirum, svo sem poppi/rokki, djass, klassík og bara því sem álitlegt þykir hverju sinni.

Tónlistarkona Sóley kemur fram ásamt fullskipaðri sveit á næstu Háskólatónleikum sem sendir verða út í beinni útsendingu frá Háskólatorgi miðvikudaginn 24. febrúar kl. 12.15.

Sóley í beinu streymi frá Háskólatorgi