Skip to main content

Meistarafyrirlestur í jarðfræði - Magnús Freyr Sigurkarlsson

Meistarafyrirlestur í jarðfræði - Magnús Freyr Sigurkarlsson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
30. maí 2018 9:30 til 11:00
Hvar 

Askja

Stofa 131

Nánar 
Allir velkomnir

Meistaranemi: Magnús Freyr Sigurkarlsson
Heiti verkefnis: Byggingarlag jaðars Múlajökuls og gerð og lega sethryggja framan við jökulinn í kjölfar framhlaupa
___________________________________________
Deild: Jarðvísindadeild 
Leiðbeinandi: Ívar Örn Benediktsson, rannsóknasérfræðingur á Jarðvísindastofnun Háskólans

Einnig í meistaranefnd: Dr. Emrys Phillips, sérfræðingur við British Geological Survey og prófessor við Queen Mary University, London.
Dr. Ólafur Ingólfsson, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands

Prófdómari: Þorsteinn Þorsteinsson, sérfræðingur á sviði jöklarannsókna hjá Veðurstofu Íslands

Ágrip

Rannsókn þessi snýr að byggingu og þróun Múlajökuls eftir framhlaupið 2008 og tengslum þessa við landslagið undir jöklinum. Byggingareinkenni á yfirborði jökulsins og hryggir framan við sporðinn voru kortlögð ítarlega með hjálp loftmynda og mynda úr flýgildi, auk nákvæmra hæðarlíkana. Hefðbundnum aðferðum í jöklajarðfræði og landmótun var beitt við að kanna setgerð, byggingu og dreifingu hryggjanna framan við jökulinn. Nákvæm kortlagning byggingareinkenna, s.s. sprungna, bendir til þess að rennsli og skriðhraði sé mestur fyrir miðju en minnki til beggja hliða. Mörkin á milli þessara svæða einkennast af misþróuðum brotabeltum með sveigðum og skástígum togsprungum sem sýna vel innbyrðis hreyfingar í jöklinum. Brotabeltin leiða í ljós flókið mynstur ísflæðis í sporði Múlajökuls og margbrotið samspil á milli jökuls og undirlags. Undirlag Múlajökulls einkennist af djúpu bæli innan við bogadreginn hrygg og raðir ílangra jökulalda sem finnast undir núverandi jökulsporði. Langflestir hryggjanna framan við jökulinn liggja nokkurn veginn samsíða flæðistefnu hans og langsprungum í sporðinum, og samanstanda mestmegnis af jökulruðningi með kubbalaga hnullungum og einangruðum vösum af aðgreindu seti. Þetta bendir til þess að hryggirnir hafi líklega myndast er botnurð þrýstist upp í sprungur sem náðu niður í botn jökulsporðsins. Einstaka þverstæða hryggi má einnig finna þétt við jökulsporðinn en þeir eru taldir vera ýtigarðar og ekki beintengdir sprungumynstri jökulsins. Rannsóknin eykur skilning okkar á flæði framhlaupsjökla og sprungukerfi þeirra, sem og á dreifingu landforma og tengslum þeirra við sprungukerfi jöklanna. Þessi tengsl eru enn torskilin en geta veitt mikilvægar upplýsingar um hegðun og flæði bæði núverandi og horfinna jökla.

 Magnús Freyr Sigurkarlsson

Meistarafyrirlestur í jarðfræði - Magnús Freyr Sigurkarlsson