Kynslóðin sem erfir loftslagsvandann — skólakerfi í viðmiðaskiptum | Háskóli Íslands Skip to main content

Kynslóðin sem erfir loftslagsvandann — skólakerfi í viðmiðaskiptum

Hvenær 
18. nóvember 2019 15:00 til 15:50
Hvar 

Stakkahlíð / Háteigsvegur

Bratti

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Menntavísindasvið Háskóla Íslands hrindir af stað nýrri fyrirlestraröð um loftslagshamfarir og hlutverk menntakerfisins. Á fyrsta fundinum munu Andri Snær Magnason, rithöfundur og Gunnhildur Óskarsdóttir, baráttukona og dósent við Deild kennslu- og menntunarfræði, fjalla um kynslóðina sem erfir loftslagsvandann.

Eftir því sem vísindin tala skýrar og áhrif loftslagsbreytinga verða skýrari er ljóst að mannkynið stendur á tímamótum. Það þarf að stöðva alla losun gróðurhúsalofttegunda á næstu 30 árum. Öll starfsævi barna sem nú eru í grunnskólum mun snúa að þessu markmiði, það þarf að endurhugsa og endurhanna nánast allt sem var gert á 20. öld og það þarf að finna leiðir til að binda um 1000GT af CO2. Þessi áskorun færir umhverfis- og loftslagsmál frá því að vera jaðar-, stuðnings- eða hliðargrein í að verða kjarni alls sem menntakerfið fæst við. Hvort sem nemendur fara í iðnnám, hönnun, landbúnað, hagfræði eða listir, þá hefur komið fram viðfangsefni sem fjallar beinlínis um að bjarga jörðinni og koma í veg fyrir að komandi kynslóðir erfi heim sem hefur kastast inn í loftslagsóreiðu.

Hvernig getur menntakerfið brugðist við, hvert er hlutverk kennara, hvernig á að orða þessa áskorun svo að krafturinn sem losnar úr læðingi verði uppbyggilegur? 

Loftslagshamfarir — hlutverk menntakerfisins er ný fyrirlestraröð sem hefur það markmið að veita nemendum og kennurum Háskólans og starfsfólki víðsvegar í menntakerfinu innblástur, skapa umræður og vera uppspretta lærdóms.

Fyrirlestrarnir munu fjalla um umhverfismál og menntun í víðum skilningi, matarsóun og ábyrga neysluhætti, stjórnkerfið, náttúruvernd og vistvæna framtíð, samtal kynslóðanna og samfélagslega þátttöku, áhrif loftslagsbreytinga á samfélög og afleiðingar þeirra.

Dagskráin er sem hér segir:

Fyrirlestrarnir eru haldnir að jafnaði á mánudögum frá kl. 15.00-15.50 í Bratta í húsnæði Háskóla Íslands í Stakkahlíð.

18. nóvember

Kynslóðin sem erfir loftslagsvandann — skólakerfi í viðmiðaskiptum

Andri Snær Magnason, rithöfundur og umhverfisverndarsinni, og Gunnhildur Óskarsdóttir, baráttukona og dósent við Deild kennslu- og menntunarfræði.

13. janúar 2020

Hvernig breytum við lífsháttum okkar? Ábyrg neysla og menntakerfið

Rakel Garðarsdóttir, forsvarskona samtakanna Vakandi, og Auður Pálsdóttir, lektor við Deild faggreinakennslu.

10. febrúar

Stjórnum við þróuninni? Sköpum vistvæna framtíð

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og  Helena Óladóttir, aðjunkt við Menntavísindasvið.

16. mars

Loftslagið og samtal kynslóðanna

Feðginin Eir Ólafsdóttir, framhaldsskólanemi við Menntaskólann í Hamrahlíð og hljómsveitarmeðlimur í Ateriu, og Ólafur Páll Jónsson, prófessor við Deild menntunar og margbreytileika.

 30. mars

Hvað getum við gert? Breytum til hins betra!

Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðingur og umsjónarmaður þáttanna Hvað höfum við gert? á RÚV, og Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda.

Menntavísindasvið Háskóla Íslands hrindir af stað nýrri fyrirlestraröð um loftslagshamfarir og hlutverk menntakerfisins. Á fyrsta fundinum munu Andri Snær Magnason, rithöfundur og Gunnhildur Óskarsdóttir, baráttukona og dósent við Deild faggreinakennslu, fjalla um kynslóðina sem erfir loftslagsvandann.

Kynslóðin sem erfir loftslagsvandann  —  skólakerfi í viðmiðaskiptum