Skip to main content

Háskólatónleikar á netinu – Mikael Máni og hljómsveit

Háskólatónleikar á netinu – Mikael Máni og hljómsveit - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
21. október 2020 12:15 til 12:45
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Tónleikarnir eru lokaðir en verður streymt á netinu.
The concert is closed but there will be a live stream.

Fyrstu Háskólatónleikar skólaársins fara fram miðvikudaginn 21. október nk. kl. 12.15 í beinni útsendingu frá Hátíðasal Aðalbyggingar. Þar munu djassgítarleikarinn Mikael Máni og hljómsveit hans stíga á stokk og flytja lög af plötu hans sem kom út fyrr á þessu ári.

Um áratugabil, og raunar í hálfa öld, hefur það verið hefð í Háskóla Íslands að standa fyrir svofelldum Háskólatónleikum. Um mánaðarlega viðburði er að ræða, á haust- og vormisseri, og fara þeir fram í byggingum Háskólans.

Djassgítarleikarinn Mikael Máni ríður á vaðið ásamt hljómsveit sinni á fyrstu tónleikum þessa hausts en mikið lof hefur verið borið á leik þessa efnilega tónlistarmanns undanfarin misseri, hér heima og erlendis. Tónleikunum verður streymt í ljósi yfirstandandi samfélagshamlana og salurinn verður tómur, utan tæknifólks og tónlistarmanna. Tónleikarnir standa í um hálfa klukkustund.

Smellið hér til að fara inn á tónleika Mikaels Mána á miðvikudag.

Nýr umsjónarmaður tónleikaraðarinnar og listrænn stjórnandi er dr. Arnar Eggert Thoroddsen og segist hann styðjast við slagorðið „Háskóli fyrir alla - Tónlist fyrir alla“ á þessum komandi vetri. „Þetta er mikið og gott bú sem ég tek við og ég vil nota þetta tækifæri og drjúpa höfði fyrir Margréti Jónsdóttur prófessor sem hefur haldið utan um þessa röð af einstakri fagmennsku og elju undanfarna áratugi. Hennar óeigingjarna starf hefur byggt glæsilega undir þessa hefð sem tónleikarnir eru löngu orðnir að.“

Arnar segist taka eigin slagorð alvarlega og leitast verði við að fá til samstarfs tónlistarmenn sem tilheyra alls kyns geirum, svo sem poppi/rokki, djass, klassík og bara því sem álitlegt þykir hverju sinni. „Það verður byggt á góðum grunni um leið og við þenjum röðina út í takt við nýja tíma. Fanga verður því leitað eins víða og kostur er. Einnig verður sérstök áhersla á að styðja við unga og efnilega listamenn og frumflutningi nýrra verka verður og gert hátt undir höfði.“

Síðar í haust verða tvennir tónleikar innan raðarinnar. Þeir fyrri verða með nútímatónlistarsveitinni Dymbrá 11. nóvember, en hún er skipuð kornungum stúlkum sem slógu í gegn á Músíktilraunum fyrir tveimur árum. Þá mun hin vel þokkaða sveit Umbra flytja jólatónlist með sínu annálaða nefi 16. desember.

Fyrstu Háskólatónleikar skólaársins fara fram miðvikudaginn 21. október nk. kl. 12.15 í beinni útsendingu frá Hátíðasal Aðalbyggingar. Þar munu djassgítarleikarinn Mikael Máni og hljómsveit hans stíga á stokk og flytja lög af plötu hans sem kom út fyrr á þessu ári.

Háskólatónleikar á netinu – Mikael Máni og hljómsveit