Skip to main content

Háskólamenntun - fyrir markaðinn eða manneskjuna?

Háskólamenntun - fyrir markaðinn eða manneskjuna? - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
27. maí 2022 10:30 til 12:00
Hvar 

Stakkahlíð / Háteigsvegur

Bratti

Nánar 
Aðgangur ókeypis

RannMennt, rannsóknarstofa um menntastefnu, alþjóðavæðingu og félagslegt réttlæti, býður til samræðu um háskólakennslu í Bratta, Stakkahlíð kl.10.30-12.

Nálgast má upptöku af viðburðinum hér:
https://hi.cloud.panopto.eu/Panopto/Pages/Viewer.aspx?id=38312cb4-7873-42c0-90ac-aea200ada158

Fyrirlesari er dr. Gunnlaugur Magnússon dósent við Uppsala háskóla. Eftir erindið munu Dr. Margrét Sigrún Sigurðardóttir, formaður stjórnar Kennsluakdemíunnar og Dr. Guðrún Geirsdóttir deildarstjóri Kennslumiðstöðvar ræða inntak erindisins.

Dr. Berglind Rós Magnúsdóttir, prófessor í uppeldis- og menntunarfræðum, stjórnar viðburðinum.

Útdráttur:

Í markaðsvæddu háskólasamfélagi þar sem áhersla er lögð á samkeppni og gæðastaðla eiga háskólakennarar að vera bæði sérfræðingar á sínu sviði og stunda vísindastörf á alþjóðlegum vettvangi. Undanfarin ár hefur verið lögð aukin áhersla á að háskólakennarar sæki námskeið sem auka eiga færni þeirra í kennslu. Víða í Evrópu eru til dæmis gerðar kröfur til umsækjenda um lektors- og prófessorsstöður að þau hafi klárað tiltekið magn af einingum í kennslufræði háskóla til að teljast hæf til stöðunnar. Þessar hugmyndir um þörfina á þróun kennslu háskólakennara má rekja til alþjóðlegra hugmynda og evrópskrar stefnu um háskóla og störf þeirra. Námskeið í háskólakennslu veita oft almenna þekkingu um skipulag háskólastarfs, þróun námskeiða, kennsluaðferðir og gæðamat en það hefur þó sýnt sig að ákveðin kennslumódel og hugmyndafræði hafa orðið ráðandi innan háskólakennslufræðanna. Þegar þessi módel verða að stöðlum sem kenndir eru öllum háskólakennurum takmarkast kennslufræðilegt svigrúm háskólakennara og pólitískt ráðandi hugmyndafræði um háskólastarf er haldið við.

Um bók Gunnlaugs sem fjallað verður um:

Bókin Towards a Pedagogy of Higher Education – The Bologna Process, Teaching and Didaktik setur þessa þróun í evrópskt samhengi og leggur drög að kenningu sem getur nýst háskólakennurum til að ígrunda starf sitt og finna nýjar leiðir til að undirbúa aðstæður þar sem kennarar og nemendur mætast yfir kennsluefninu. Þessi fyrirlestur byggir á röksemdafærslu bókarinnar.

Í bókinni byggja höfundarnir Gunnlaugur Magnússon og Johannes Rytzler upp gagnrýni á ráðandi hugmyndafræði um háskóla og áhrif þeirra á háskólakennara og rannsóknarfólk, sem er grundvölluð á uppeldisfræði (pedagogik) og kennslufræði (didaktik). 

Um höfunda bókarinnar:

Gunnlaugur Magnússon er dósent við Háskólann í Uppsala og stundar rannsóknir við Háskólann í Osló um menntastefnu, skóla fyrir alla og markaðsvæðingu menntakerfa.

Johannes Rytzler er lektor við Háskólann í Mälardalen í Eskilstuna og stundar rannsóknir um samstarf, störf kennara og fræðilegar rannsóknir og hugtakaþróun innan uppeldis- og kennslufræða.