Skip to main content

Doktorsvörn Eyrúnar Maríu Rúnarsdóttur

Doktorsvörn Eyrúnar Maríu Rúnarsdóttur - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
22. nóvember 2019 13:00 til 17:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur Háskóla Íslands

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Eyrún María Rúnarsdóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild menntunar og margbreytileika, Háskóla Íslands:

Líðan ungmenna af ólíkum uppruna með hliðsjón af félagslegum bakgrunni þeirra og félagslegum stuðningi

Andmælendur eru dr. Álfgeir L. Kristjánsson, dósent við West Virginia University, Bandaríkjunum, og dr. Peter F. Titzmann, prófessor við Leibniz University, Þýskalandi.

Leiðbeinandi var dr. Rúnar Vilhjálmsson, prófessor við Háskóla Íslands, og meðleiðbeinandi dr. Ólöf Garðarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands.

Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor við Háskóla Íslands og Robert Crosnoe, prófessor við University of Texas.

Dr. Atli Harðarson, formaður doktorsnámsnefndar, stjórnar athöfninni.  

Um verkefnið

Markmið rannsóknarinnar var að kanna: 1) hvernig félagslegur stuðningur og félagsleg og efnahagsleg staða í fjölskyldu auk efnahagsstöðu íbúa hverfis tengdist líðan og lífsánægju ungmenna af ólíkum þjóðernisuppruna og 2) hvers konar félagslegan stuðning unglingar af erlendum uppruna gátu sótt til íslenskra vina og vina sem einnig höfðu erlendan bakgrunn. Rannsóknargögn voru spurningalistar sem lagðir voru fyrir unglinga annars vegar í landskönnuninni Heilsa og lífskjör skólanema (HBSC – Health Behaviour in School-Aged Children) og hins vegar í nýrri rannsókn sem framkvæmd var fyrir þetta verkefni. Helstu niðurstöður voru að meiri vanlíðan og minni lífsánægja kom fram hjá ungmennum af pólskum og asískum uppruna samanborið við ungmenni sem höfðu íslenskan uppruna. Atriði á borð við bágari efnahag fjölskyldu, að búa ekki hjá báðum foreldrum eða að foreldrar voru án vinnu tengdust síðri líðan og lífsánægju ungmenna. Jafnframt nutu ungmenni af erlendum uppruna síður stuðnings foreldra, vina og bekkjarfélaga en ungmenni af íslenskum uppruna, sem einnig skýrði lakari líðan og minni lífsánægju. Efnahagur fjölskyldna í íbúahverfi tengdist líðan og lífsánægju unglinga, en ávinningur þess að búa í skólahverfi þar sem efnahagsstaða fjölskyldna var betri skilaði sér síður til unglinga af erlendum en innlendum uppruna. Þegar borinn var saman aðgangur hópanna að félagslegum stuðningi vina, nutu unglingar af erlendum uppruna síður tilfinningalegs stuðnings íslenskra vina en unglingar sem höfðu íslenskan uppruna. Niðurstöður rannsóknarinnar undirstrika mikilvægi þess að bæta stöðu innflytjendafjölskyldna á Íslandi og huga betur þeim stuðningsúrræðum sem til staðar eru og standa ungmennum af erlendum uppruna til boða.

Um doktorsefnið

Eyrún María Rúnarsdóttir er fædd á Egilsstöðum árið 1972. Hún lauk BA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og meistaraprófi í sömu grein árið 2002. Eyrún hefur lengst af starfað sem rannsakandi í innlendum og erlendum rannsóknarverkefnum og sem stundakennari og aðjunkt við Háskóla Íslands. Í rannsóknum, kennslu og leiðsögn nemenda í lokaverkefnum leggur Eyrún áherslu á samskipti í uppeldis- og skólastarfi, vináttu barna og unglinga og málefni ungmenna af erlendum uppruna. Hún starfar nú sem aðjunkt í Deild menntunar og margbreytileika á Menntavísindasviði. Eyrún er gift Þórði Heiðari Þórarinssyni fjármálastjóra og á þrjú börn, þau Unni Söru, Hrannar Daða og Heiðar.

            

                                                                   

Doktorsvörn Eyrúnar Maríu Rúnarsdóttur

Doktorsvörn Eyrúnar Maríu Rúnarsdóttur