Skip to main content

„Án ímyndunar minnar kæmist ég ekkert“

„Án ímyndunar minnar kæmist ég ekkert“ - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
9. desember 2021 12:00 til 13:00
Hvar 

Þjóðminjasafn Íslands

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Guðrún Steinþórsdóttir er fimmti og jafnframt lokafyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á haustmisseri 2021. Fyrirlestur Guðrúnar nefnist „„Án ímyndunar minnar kæmist ég ekkert“. Um ferðalag lesandans inn í skáldaða heima Vigdísar Grímsdóttur” og verður haldinn kl. 12.00–13.00 þann 9. desember í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. 

Í erindinu verður fjallað um þátt lesandans í að skapa skáldskapinn sem hann les með hliðsjón af viðtökurannsóknum á völdum verkum Vigdísar Grímsdóttur. Meðal annars verður rætt hvernig lesendur nýta sér ímyndunaraflið þegar þeir fylla inn í eyður verkanna sem þeir lesa og búa sér til bakgrunnssögur um persónur. Þá verður skoðað hvaða tilfinningar kunna að vakna við lesturinn, hvort lesendur hafi samlíðan með persónum og eins hvernig þeim gengur að ferðast inn í skáldaða heima Vigdísar.  

Guðrún er með doktorsgráðu í íslenskum bókmenntum. Hún er sjálfstætt starfandi fræðimaður, stundakennari við Háskóla Íslands og annar aðalritstjóri Ritsins, tímarits Hugvísindastofnunar. Bókmenntarannsóknir hennar má kenna við hugræn fræði, læknahugvísindi og femínisma. Nýlega sendi hún frá sér bókina Raunveruleiki hugans er ævintýri. Um valdar sögur Vigdísar Grímsdóttur, einkenni þeirra og viðtökur en úr henni er efni fyrirlestursins fengið. 

Grímuskylda er á viðburðinum. 

Að fyrirlestri loknum verður upptaka gerð aðgengileg á heimasíðu RIKK og Youtube-rás Hugvísindasviðs

Þann 25. ágúst á þessu ári voru liðin 30 ár frá stofnun RIKK, eða Rannsóknastofu í kvennafræðum eins og stofnunin hét á fyrstu starfsárum sínum. Að því tilefni tekur hádegisfyrirlestraröð stofnunarinnar á haustmisseri 2021 stöðuna á jafnréttisrannsóknum þar sem litið er til þess hvert kvenna-, kynja- og jafnréttisrannsóknir stefna með áherslu á nýja rannsakendur á þessu sviði. Umfjöllunarefni fyrirlestrana eru fjölbreytt og endurspegla breiddina í jafnréttisrannsóknum. 

Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á póstlista RIKK hér og fá tilkynningar um viðburði senda í tölvupósti. 

Guðrún Steinþórsdóttir er fimmti og jafnframt lokafyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á haustmisseri 2021. Fyrirlestur Guðrúnar nefnist „„Án ímyndunar minnar kæmist ég ekkert“. Um ferðalag lesandans inn í skáldaða heima Vigdísar Grímsdóttur” og verður haldinn kl. 12.00–13.00 þann 9. desember í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. 

„Án ímyndunar minnar kæmist ég ekkert“