Skip to main content

Á slóðum endurreisnarinnar: Ráðstefna Norræna tengslanetsins um endurreisnarfræði

Á slóðum endurreisnarinnar: Ráðstefna Norræna tengslanetsins um endurreisnarfræði - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
28. september 2022 17:00 til 30. september 2022 18:00
Hvar 

Reykholt

Nánar 
Aðgangur ókeypis

„Á slóðum endurreisnarinnar“ (Renaissance Itineraries) – Fimmta ráðstefna Norræna tengslanetsins um endurreisnarfræði verður haldin í Snorrastofu í Reykholti 28. - 30. september 2022.  Erindi á málþinginu flytja 40 fræðimenn frá Íslandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Þýskalandi. Skipuleggjendur ráðstefnunnar eru Snorrastofa, Reykholt, Háskóli Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. 

Frá lokum miðalda og fram eftir nýöld urðu afgerandi breytingar á evrópskri menningu með gríðarlegum landafundum og vísinda- og tækninýjungum af ýmsu tagi sem umbyltu heimsmynd álfunnar. Við fall Miklagarðs árið 1454, sem olli flótta menntamanna í vesturátt með tilheyrandi flutningi handrita, jókst aðgengi að fornmenntum Miðjarðarhafsins sem urðu með tímanum að ráðandi fyrirmynd í menningu og listum. Um 1600, ekki síst fyrir tilstilli Arngríms fróða, uppgötvuðu evrópskir lærdómsmenn fornar menntir norðurslóða, þar á meðal Noregskonunga sögur íslenska höfðingjans Snorra Sturlusonar, sem prentaðar voru og þýddar á ýmis mál. Undir lok tímabilsins tók Þormóður Torfason upp þráðinn frá miðöldum og ritaði á latínu sögu Norðurlanda og Atlantshafseyja á grundvelli íslenskra heimilda.

Allir fyrirlestrar á þinginu verða haldnir í Reykholti fimmtudaginn 29. september frá kl. 8 – 16:30 og eru opnir gegn 5.000 króna ráðstefnugjaldi sem er greiðsla fyrir hádegismat, kaffi og meðlæti. Væntanlegir þátttakendur eru beðnir að skrá sig fyrir 27. september hjá Sigrúnu Þormar (sigrun@snorrastofa.is). Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um dagskrá og fyrirlesara á vefsíðu Snorrastofu.

Norræna tengslanetið um endurreisnarfræði var stofnað í Róm árið 2011 og hefur þegar haldið ráðstefnur í höfuðborgum hinna Norðurlandanna.

Verið öll hjartanlega velkomin!

Titilsíða fyrstu útgáfu Heimskringlu í Svíþjóð í lok 17. aldar.

Á slóðum endurreisnarinnar: Ráðstefna Norræna tengslanetsins um endurreisnarfræði