Skip to main content

Trans, hinsegin og femínismi

Þorgerður Einarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild

„Trans, hinsegin og femínismi“ er titill rannsóknar sem Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði, vinnur að í samstarfi við Jyl Josephson, dósent við Rutgers-háskóla í Bandaríkjunum.

„Þetta er viðtalsrannsókn um samspil kynjajafnréttis, kynhneigðar og kynvitundar og hvort barátta transfólks, hinseginfólks og femínista fari saman eða sé í innbyrðis andstöðu,“ útskýrir Þorgerður.

Þorgerður Einarsdóttir

„Þetta er viðtalsrannsókn um samspil kynjajafnréttis, kynhneigðar og kynvitundar og hvort barátta transfólks, hinseginfólks og femínista fari saman eða sé í innbyrðis andstöðu.“

Þorgerður Einarsdóttir

„Margt er sameiginlegt með þessum hópum, svo sem barátta gegn mismunun og útilokun enda þótt markmiðin séu ólík. Erlendis hefur borið á tortryggni milli þessara hópa um allt frá skilgreiningum á kyni, kynhneigð og kynvitund til pólitískra markmiða kynjajafnréttis.

Málefni transfólks, sem víða eru hluti af hinseginsamfélaginu, voru lengi ósýnileg og enn þykja mörgum baráttumálin óskyld. Mörgum sís-femínistum, þ.e. femínistum sem ekki eru transfólk, þykir barátta transfólks ýta undir kynjatvíhyggju, sem femínistar berjast gegn, en transfólk tortryggir femínista fyrir að útiloka transfólk eða nota transmálefni einungis í eigin þágu,“ segir Þorgerður.

Ísland er kjörinn vettvangur fyrir slíka rannsókn þar sem lagaleg staða og réttindi þessara hópa þykja góð hér á landi í alþjóðlegum samanburði. Smæð samfélagsins skapar einnig nálægð sem gefur möguleika á að skoða snertifleti og ágreining betur en ella.

Rannsóknin er vel á veg komin og fyrstu niðurstöður hennar sýna meiri innbyrðis blæbrigði, ekki síst meðal transfólks, en fyrri rannsóknir hafa sýnt. „Þá staðfesta þær ákveðna spennu og ágreining milli femínista, hinsegin- og transfólks en jafnframt fleiri snertifleti og meiri stuðning milli hópanna en vænta mætti,“ segir Þorgerður.