Skip to main content

Saga hreindýra á Íslandi

Verkefnið felst í rannsókn á sögu sambúðar manna og hreindýra á Íslandi. Fyrstu hreindýrin voru flutt til Íslands frá Finnmörku í Noregi árið 1771 og var þeim ætlað að verða Íslendingum lífsbjörg á erfiðum tímum. Fyrsti áfangi rannsóknarinnar var útgáfa bókarinnar Öræfahjörðin. Saga hreindýra á Íslandi, (Sögufélag, 2019). Bókin fjallar um sögu hreindýra á Íslandi frá seinni hluta átjándu aldar til dagsins í dag.

Rannsóknin er heildstæð hugmyndasaga sem fjallar jafnt um hreindýrin sjálf sem viðhorf landsmanna til þeirra. Sagðar eru sögur af harðri lífsbaráttu á hreindýraslóðum, æsilegum veiðiferðum og misjöfnum tilraunum til hreindýrabúskapar. Ekki má gleyma hreindýrunum sem áður gengu í Þingeyjarsýslu, á Reykjanesskaga og í Fljótshlíð en eru nú horfin af sjónarsviðinu. Seinni áfangi verkefnisins felst í að koma efninu á framfæri í ritrýndum erlendum tímaritum.