Skip to main content

Um nám í hagnýtri siðfræði

Sífellt fleiri fagstéttir þurfa að takast á við erfiðar siðferðilegar spurningar í starfi sínu. Má þar m.a. nefna heilbrigðisstéttir, starfsfólk í viðskiptalífinu, náttúrufræðinga, líffræðinga, blaðamenn, kennara, og stjórnmálamenn. Nám í hagnýtri siðfræði er sniðið fyrir fólk með margvíslegan bakgrunn sem vill verða færara um að takast á við siðferðileg viðfangsefni í nútímasamfélagi, styrkja fagmennsku sína og siðferðisvitund. Nemendur kynnast helstu kenningum siðfræðinnar, rannsóknaaðferðum í hagnýtri siðfræði og fá þjálfun í rökræðum og ákvörðunum um siðferðileg úrlausnarefni samtímans.

Nám í hagnýtri siðfræði samanstendur af þremur kjörsviðum: Heilbrigðis- og lífsiðfræði, Umhverfis- og náttúrusiðfræði og Viðskiptasiðfræði. Umsækjendur skulu hafa lokið B.A., B.Sc., B.Ed.-prófi eða öðru sambærilegu háskólaprófi.

Umsjón með meistaranámi í Hagnýtri siðfræði hefur Vilhjálmur Árnason, prófessor, s. 525-4356 og netfang: vilhjarn@hi.is.

Markmið
Markmið kennslu í hagnýtri siðfræði er að veita nemendum góða undirstöðumenntun í siðfræði. Nemendur í hagnýtri siðfræði við Háskóla Íslands eiga að öðlast:

  • almenna þekkingu og skilning á aðferðum og kenningum í heimspekilegri siðfræði og hagnýtri siðfræði;
  • nákvæma þekkingu og skýran skilning á einu sérsviða hagnýtrar siðfræði;
  • færni til þess að taka rökstudda afstöðu til siðferðilegra álitamála;
  • þjálfun í gagnrýninni hugsun, nákvæmum lestri og að gera skýra og rökstudda grein fyrir skoðunum sínum í rituðu máli.

Kjörsvið í hagnýtri siðfræði
Hagnýt siðfræði er kennd til MA-prófs á þremur kjörsviðum (90e). Einnig er viðbótarnám (30e) í gagnrýnni hugsun og siðfræði sem veitir diplóma. MA-nám tekur að jafnaði þrjú misseri, en diplómanámi má ljúka á tveimur misserum.

  • Heilbrigðis- og lífsiðfræði: Námið þjálfar fólk í að nota siðfræðilega hugsun við að greina og rökræða raunhæf úrlausnarefni í heilbrigðisþjónustu og lífvísindum. Námið hafa sótt einstaklingar með bakgrunn í hjúkrunarfræði, læknisfræði, líffræði, erfðafræði, lögfræði, guðfræði og félagsvísindum svo dæmi séu nefnd.
  • Umhverfis- og náttúrusiðfræði: Námið þjálfar fólk í rökræðu um siðferðileg úrlausnarefni á sviði umhverfismála og í að greina mismunandi viðhorf til náttúrunnar. Námið hafa sótt einstaklingar með bakgrunn í líffræði, skipulagsfræði, verkfræði, heimspeki, bókmenntum og félagsvísindum svo dæmi séu nefnd.
  • Viðskiptasiðfræði: Í náminu er sérstaklega hugað að spurningum um ábyrgð fyrirtækja í samfélaginu, hver séu tengsl markaðar við siðferðið og fjallað um siðferðilega ábyrgð einstaklinga. Námið hafa sótt einstaklingar með bakgrunn í viðskiptafræði, lögfræði, hug- og félagsvísindum og atvinnulífinu svo dæmi séu nefnd.

Diplómanám gagnrýnni hugsun og siðfræði
Diplómanám í gagnrýnni hugsun og siðfræði er 30e nám sem hægt er að ljúka á tveimur misserum. Námið er ætlað fagfólki sem vill efla dómgreind sína og siðferðisvitund og markmið þess eru:

  • þjálfun í gagnrýnni hugsun og að gera skýra og rökstudda grein fyrir skoðunum sínum í mæltu og rituðu máli;
  • almenn þekking og skilningur á aðferðum og kenningum í heimspekilegri og hagnýtri siðfræði;
  • færni til þess að taka rökstudda afstöðu til siðferðilegra álitamála.

Doktorsnám í hagnýtri siðfræði
Doktorsnám í hagnýtri siðfræði er 180e rannsóknarnám. Náminu er ætlað að veita doktorsnemum fræðilega þjálfun og búa þá undir vísinda- og ráðgjafarstörf, t.d. háskólakennslu eða sérfræðingsstörf hjá vísindalegum rannsóknastofnunum. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Hugvísindastofnunar.

Nánari upplýsingar
Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám. Upplýsingar um námið má nálgast í kennsluskrá.