Skip to main content
11. apríl 2022

Varði doktorsritgerð um skapgerðarmenntun og mikilvægi gilda innan umhverfis- og sjálfbærnimenntunar

Varði doktorsritgerð um skapgerðarmenntun og mikilvægi gilda innan umhverfis- og sjálfbærnimenntunar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Karen Elizabeth Jordan varði doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild menntunar og margbreytileika, Háskóla Íslands föstudaginn 8. apríl.

Ritgerðin nefnist Að flétta saman skapgerðarmenntun og mikilvægi gildda innan umhverfis- og sjálfbærnimenntunar: Þverfræðilega rannsókn á sameiginlegum flötum, átakapólum og möguleikum.
Andmælendur voru dr. Randall Curren prófessor við Háskólann í Rochester í Bandaríkjunum og dr. Elsa Lee dósent við Cambridge háskólann í Englandi. Aðalleiðbeinandi var dr. Ólafur Páll Jónsson prófessor við Menntavísindasvið og meðleiðbeinandi dr. Stephen Gough prófessor við Háskólann í Bath í Englandi. Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Kristján Kristjánsson prófessor við Háskólann í Birmingham í Englandi. Dr. Berglind Rós Magnúsdóttir, varaforseti Deildar menntunar og margbreytileika stýrði athöfninni.

Um rannsóknina
Þótt lögð sé rækt við gildi innan umhverfis- og sjálfbærnimenntunar, og breytt gildismat talið forsenda sjálfbærrar framtíðar, hafa kennarar oft óljósar eða mótsagnakenndar hugmyndir um hvort og hvernig ætti að vinna með gildi í menntun. Í þessari þverfræðilegu rannsókn er skoðað hvernig hugmyndir frá skapgerðarmenntun geti stutt við gildamenntun innan umhverfis- og sjálfbærnimenntunar. Rannsóknin skiptist í þrjá hluta: Fyrsti hlutinn er heimspekileg rannsókn innan aristótelískrar dygðasiðfræði. Annar hlutinn er tilviksrannsókn sem unnin var í grunnskóla í Skotlandi sem vinnur í anda heilstæðrar menntunar. Þriðji hlutinn er Delfí-rannsókn þar sem tólf sérfræðingar í umhverfis- og sjálfbærnimenntun annars vegar og skapgerðarmenntun hins vegar tóku þátt í stýrðri hópsamræðu í gegnum tölvupóst.

Um doktorsefni
Karen Elizabeth Jordan útskrifaðist með BS-gráðu í umhverfislíffræði frá Aberystwyth Háskólanum árið 2003, diplómu í kennslufræði frá Oxford Brookes Háskólanum árið 2008, og meistaragráðu í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands árið 2012. Hún hefur starfað við ýmis verkefni á sviði sjálfbærni í yfir 20 ár, allt frá skýrslugerð fyrir NGO Global Justice Now í Skotlandi, og þróun skólaverkefna fyrir Hvalasafnið á Húsavík. Frá árinu 2012 hefur Karen stundað rannsóknir og kennslu á sviði umhverfis- og sjálfbærnimenntunar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Berglind Rós Magnúsdóttir, dr. Elsa Lee, Karen Elizabeth Jordan, dr. Randall Curren og Kolbrún Þ. Pálsdóttir.