Skip to main content
28. apríl 2021

Í hópi áhrifamestu vísindamanna heims á sviði loftslagsmála

Í hópi áhrifamestu vísindamanna heims á sviði loftslagsmála - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jukka Heinonen, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, er í hópi 1.000 áhrifamestu vísindamanna heims á sviði loftslagsmála samkvæmt lista Reuters-fréttastofunnar sem birtur var nýverið. Hann er eini vísindamaðurinn á Íslandi sem kemst á listann.

Listinn ber heitið The Reuters Hot List og endurspeglar áhrif vísindamannanna á umræðu um loftslagsmál sem eru eitt stærsta viðfangsefni samtímans. Listinn byggist á þremur kvörðum: fjölda vísindagreina sem viðkomandi vísindamaður hefur birt á sviði loftslagsmála, fjölda tilvitnina í umræddar rannsóknir hjá öðrum vísindamamönnum í svipuðum greinum og áhrifum rannsóknanna í almennri umræðu, þ.e. hversu oft vísað er til þeirra í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum, í stefnumarkandi gögnum og annars staðar á opinberum vettvangi. Endanleg röðun vísindamanna á listann byggist á summu þessara þriggja þátta og þar reynist Jukka Heinonen í 704. sæti.

Jukka Heinonen er með doktorsgráðu í fasteignahagfræði frá Aalto-háskóla í Finnlandi og MS-gráðu í félagsvísindum (hagfræði) frá Helsinki-háskóla. Hann hefur starfað við Háskóla Íslands frá árinu 2014, fyrst sem dósent en sem prófessor frá árinu 2016. Hann er jafnframt með stöðu við Aalto-háskóla í Finnlandi og hefur gegnt gestarannsóknarstöðum við Háskólann í Nýju-Suður-Wales í Ástralíu og University of California, Berkeley í Bandaríkjunum.

Jukka hefur í rannsóknum sínum lagt áherslu á varpa ljósi á neyslutengda losun gróðurhúsalofttegunda, eða svokallað kolefnisspor, í samfélögum. Jukka og samstarfsfólk vann t.d. fyrstu rannsóknina á neysludrifnu kolefnisspori Íslendinga en hún leiddi í ljós að kolefnisspor íslenskra heimila er áþekkt því sem gerist meðal þjóða Evrópusambandsins þrátt fyrir sérstöðu Íslands í orkumálum. Rannsóknirnar sýna einnig að útblástursbyrði vegna neyslu íslenskra heimila er mest í þróunarríkjum.

Einnig hefur hann rannsakað svokölluð endurvarpsáhrif í neyslumynstri, það er að segja hvernig það að draga úr neyslu á vöru eða þjónustu á einu sviði getur leitt til aukinnar neyslu á öðru sviði. 

Nánar um Jukka Heinonen á Vísindavefnum

Lista Reuters yfir áhrifamestu vísindamenn heims á sviði loftslagsmála og forsendur röðunarinnar má nálgast á vef fréttastofunnar.

Jukka Heinonen