Skip to main content

Háskólar og nýsköpun

Nýsköpun er lykilhugtak í (íslenskum) stjórnmálum samtímans en það er þó bæði óljóst og menn skilja það á mismunandi hátt. Spurningin er því hvað er átt við með nýsköpun og hvernig geta háskólar – og menntakerfið í heild – stuðlað að fjölbreyttri og öflugri nýsköpun í samfélaginu? 

Málstofustjóri: Freyja Birgisdóttir, dósent við Sálfræðideild

Kl. 14.00-14.15     Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs – Deigla háskólanýsköpunar 

Háskólasamfélaginu er oft lýst sem heppilegu umhverfi til að laða fram nýsköpun. Til að svo sé þarf að huga að þeim þáttum sem þurfa að vera til staðar til að nýsköpun verði eðlilegur hluti starfseminnar. Í erindinu verður velt upp hvaða þættir þetta eru og hvernig hægt er að samþætta þá til að nýsköpun nýtist til lausna samfélagslegra áskorana. 

Kl. 14.15-14.30     Svanborg Rannveig Jónsdóttir, dósent við Menntavísindasvið – „Við erum að læra aðallega að gera heiminn betri og búa til nýja hluti“ 

Í erindinu verður fjallað um mikilvægi þess að rækta hæfni til nýsköpunar og framtakssemi gegnum alla skólagönguna frá leikskóla til háskóla. Fjallað verður um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt á öllum skólastigum. Dæmi verða tekin af skemmtilegum hugmyndum barna og ungs fólks sem hafa orðið til í nýsköpunarmennt. Einnig verður fjallað um hlutverk kennara í slíku námi og kennslu og á hvaða hátt Háskóli Íslands getur stutt við slíka menntun.

Kl. 14.30-14.45     Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Læknadeild – Er hlutverk háskóla í nýsköpun vanmetið? 

Háskólum er iðulega lýst sem svifaseinum fílabeinsturnum með lítil tengsl við atvinnulífið. Nýlegar rannsóknir benda til að þessi ímynd sé ekki rétt og að háskólar og rannsóknastofnanir gegni mikilvægu hlutverki fyrir nýsköpun og framþróun atvinnulífsins og taki oft mestu áhættuna. Í erindinu verða tekin nokkur dæmi, þ.m.t. hvernig erfðabreytingatæknin CRISPR kom til sögunnar.

Kl. 14.45-15.00     Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch, framkvæmdastjóri Platome Biotechnology – Margt smátt - sýn frumkvöðuls 

Hvað tekur við eftir að hugmynd fæðist og hefur verið fóstruð innan háskólans? Í erindinu verður fjallað um nýsköpunarumhverfið á Íslandi og hvernig háskólinn kemur við sögu við uppbyggingu flestra íslenskra sprota á einn eða annan hátt. Þá verður einnig fjallað um mikilvægi nýsköpunar í að veita smærri þjóðum samkeppnishæfni á alþjóðlegum mörkuðum.

Kl. 15.00-15.15    Umræður

Kl. 15.15-15.30    Kaffihlé