Skip to main content

Háskóli framtíðar

Háskólar standa á krossgötum um þessar mundir, bæði hvað varðar kennsluhætti og skipulag. Hinn hefðbundni háskóli var (a.m.k. í kenningunni) samfélag kennara og nemenda þar sem fléttað var saman rannsóknum og námi og nemendur voru í daglegum samskiptum bæði við kennara og sín á milli. Verður framtíðarháskólinn allt annars eðlis? Mun háskólanám færast frá staðbundnum stofnunum yfir í alþjóðleg stórfyrirtæki sem reka háskólakennsluna að mestu í fjarnámi? Hvernig sjáum við fyrir þau áhrif sem „fjórða iðnbyltingin“ mun hafa á starfsemi háskóla?

Málstofustjóri: Kolbrún Þ. Pálsdóttir, dósent við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda og forseti Menntavísindasviðs

Kl. 13.00-13.15   Hilmar B. Janusson, forstjóri Genís og formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands – „Það skiptir engu máli til hvaða starfa þú lærir, þú verður farinn að gera eitthvað allt annað eftir 10 ár“ 

Á síðustu 100 árum hefur sjálfsákvörðunarréttur fullvalda þjóða og einstaklinga farið saman þegar hann er byggður á menntun og þekkingu. Verður það þannig í framtíðinni? Hvaða áherslur, nýjar og gamlar, munu skipta mestu máli í háskóla framtíðarinnar og varða sjálfsákvörðunarrétt? Og hverjar ekki?

Kl. 13.15-13.30   Margrét Sigrún Sigurðardóttir, lektor við Viðskiptafræðideild – Nám og ný tækni – Hver er framtíð í upptökum fyrirlestra?

Á undanförnum árum hefur ný tækni skapað nýja möguleika í námi og kennslu. En leiðir ný tækni alltaf til betra náms? Hvað eru gæði í námi og styðja upptökur á fyrirlestrum raunverulega við þau gæði? 

Kl. 13.30-13.45   Elísabet Brynjarsdóttir, forseti Stúdentaráðs – „Stúdentar móta framtíð háskólans“ 

Hver eru raunveruleg völd stúdenta við að hafa áhrif á framtíð háskólanna og stefnu þeirra? Tíðrætt er um aukið samstarf milli starfsfólks háskóla og stúdenta og að háskólar eigi að vera eitt samheldið samfélag. Hver er upplifun stúdenta?

Kl. 13.45-14.00    Umræður