Skip to main content

Háskóli Íslands og lýðveldi vísindanna

Háskólum hefur löngum verið ætlað að sinna tvíþættu hlutverki, þ.e. annars vegar að vera vettvangur fyrir vísindarannsóknir, sem eiga sér engin landamæri, og hins vegar að þjóna því tiltekna samfélagi sem þeir eru staðsettir í. Fyrsti rektor Háskóla Íslands, Björn M. Ólsen, ræddi þessar skyldur skólans í ávarpi sem hann flutti 17. júní 1911 á stofnhátíð skólans en þar talar hann um háskóla annars vegar sem „þjóðskóla“ og hins vegar sem borgara í „lýðveldi vísindanna“ – þeir eru „kosmopolitiskar stofnanir um leið og þeir eru þjóðlegar stofnanir“, eins og hann orðaði það. Á undanförnum árum hefur mikil áhersla verið lögð á tengsl Háskóla Íslands og starfsmanna hans við umheiminn og mikilvægi þess að hann raðist hátt á alþjóðlegum listum um háskóla. Spurningin er því hvort þjóðskólahugmyndin sé einfaldlega fallin úr gildi á tímum alþjóðavæðingar enda hefti hún tilranunir Háskólans til að festa sig í sessi sem alþjóðlegur rannsóknarháskóli. 

Málstofustjóri: Bjarni Bessason, prófessor við Umhverfis- og bygginarverkfræðideild

Kl. 10.50-11.05     Sigrún Ólafsdóttir, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði og þjóðfræðideild – Skipta rannsóknir samfélagið máli?

Ákveðin togstreita um gildi rannsókna fyrir samfélagið er óumflýjanleg. Fræðafólk háskólanna birtir reglulega greinar í virtustu tímaritum heims, sem eykur sýnileika Íslands og íslenskra vísinda. En rannsóknir hafa líka það hlutverk að veita innsýn í staðbundinn veruleika og geta þannig bætt samfélagið. Þó að það sé hægara sagt en gert hlýtur áherslan að vera á rannsóknir sem gera hvort tveggja, leitast að því að skilja og skilgreina íslenskan veruleika en setja þá þekkingu í víðara alþjóðlegt samhengi.

Kl. 11.05-11.20     Salvör Nordal, Umboðsmaður barna – Samspil alþjóðlegra rannsókna og samfélags 

Frumkvöðlar á borð við Björn M. Olsen töldu ekki að hið tvíþætta hlutverk Háskólans, að vera þjóðskóli og stunda alþjóðlegar rannsóknir eða vera „borgari í hinu alþjóðlega lýðveldi vísindanna“, fæli í sér mótsögn. Hugmyndin um Háskóla Íslands sem þjóðskóla er samofin sögu hans þó vissulega hafi áherslan á alþjóðlegar rannsóknir fengið aukið vægi á síðustu árum. Í erindinu mun ég fjalla stuttlega um þessar hugmyndir og taka dæmi um stofnanir og verkefni bæði innan Háskólans og utan sem hafa þjónað mikilvægu samfélagslegu hlutverki en jafnframt lagt grunn að alþjóðlegu rannsóknarstarfi. Verkefni sem sýna vel hvernig þessi ólíku hlutverk spila saman. 

Kl. 11.20-11.35    Magnús Karl Magnússon, prófessor við Læknadeild – Þjóðskóli eða lýðveldi vísindanna, andstæðar eða samhliða hugmyndir? 

Hinu þjóðlega hlutverki Háskóla Íslands er oft teflt fram sem andstöðu við hið alþjóðlega hlutverk skólans sem borgara í „lýðveldi vísindanna“.  Á skólinn að stuðla að breiðri uppbyggingu á öllum fræðasviðum eða á hann að einblína á þau fræðasvið þar sem skólinn getur skarað fram úr á alþjóðlegum mælistikum? Í erindi mínu velti ég fyrir mér þessum átakapunktum og hvernig þeir geti endurspeglast með ólíkum hætti á mismunandi skólastigum. Sérstaklega mun ég beina sjónum að grunn- og fagnámi annars vegar og doktorsnámi hins vegar.

Kl. 11.35-11.50    Umræður

Kl. 11.50-13.00    Hádegishlé