Skip to main content

Meistarafyrirlestur í umhverfisverkfræði - Anna Birna Þorvarðardóttir

Meistarafyrirlestur í umhverfisverkfræði - Anna Birna Þorvarðardóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
28. júní 2018 16:00 til 17:30
Hvar 

VR-II

Stofa 147

Nánar 
Allir velkomnir

Meistaranemi: Anna Birna Þorvarðardóttir

Heiti verkefnis: Hjólreiðaslys á Íslandi 2011-2016: Rannsókn á alvarleika meiðsla hjá hjólreiðamönnum

___________________________________________

Deild: Umhverfis- og byggingarverkfræðideild

Leiðbeinandi: Dr. Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor og deildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar

Aðrir í meistaranefnd: Þorsteinn Þorsteinsson, verkfræðingur og aðjúnkt við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild

Prófdómari: Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, byggingarverkfræðingur hjá Reykjavíkurborg

Ágrip

Hjólreiðar hafa stóraukist undanfarin ár hér á landi, og sést sú aukning helst á höfuðborgarsvæðinu. Mikið er lagt upp úr því að halda áfram þeirri aukningu með skipulöguðum áætlunum um fjölgun og eflingu vistvænna samganga. Á sama tíma og hjólreiðanotkun hér á landi eykst þá hefur orðið fjölgun á hjólreiðaslysum. Mikilvægt er að með aukinni notkun á reiðhjólum sé horft til þess að efla umferðaröryggi hjólandi vegfaranda. Skoðuð verða gögn frá Samgöngustofu, en stofnunin sér um slysaskráningu vegna umferðaslysa sem byggjast á lögregluskýrslum. Gögnin ná yfir tímabilið 2011 til 2016 þar sem umferðarslys með reiðhjólum eru samtals 938, þar sem fjöldi hjólreiðamanna voru 994 einstaklingar. Greint verður eftir alvarleika meiðsla sem skiptist í flokkanna banaslys, mikil meiðsl, lítil meiðsl og engin meiðsli. Sýndu niðurstöður rannsóknarinnar að slysahlutfall hjólreiðamanna var 0,10% (banaslys), 17,7% (mikil meiðsl), 47,2% (lítil meiðsl) og 35,0% (engin meiðsl). Kom greinilega í ljós fjölgun á hjólreiðaslysum yfir tímabilið og var hún vaxandi á milli ára þrátt fyrir smá fækkun árið 2015. Fjöldi slysa með litlum meiðslum jókst þegar leið á tímabilið en hjólreiðaslys með miklum meiðslum eru hlutfallslega jafn mörg á milli ára. Slys hjólreiðamanna með alvarleg meiðsli (banaslys og mikil meiðsli) eftir fall af reiðhjóli án áreksturs við annað ökutæki voru marktækt fleiri en hjólreiðaslys með alvarlegum meiðslum vegna áreksturs við ökutæki eða milli hjóla. Gefur þetta til kynna vanskráningu á hjólreiðaslysum með minniháttar meiðslum þar sem þörfin á að tilkynna til lögreglu er lítil eða engin þegar hjólreiðamenn falla af reiðhjóli án áreksturs við annað ökutæki. Hjólreiðaslys sem gerast við önnur birtuskilyrði en dagsbirtu voru líklegri til að valda alvarlegum meiðslum heldur en þau slys sem gerast við dagsbirtu. Mikilvægt er því að fylgjast með notkun reiðhjóla ásamt slysatíðni því með betri slysagögnum er hægt að tryggja betra öryggi og leysa möguleg vandamál. Það er því hægt að segja að skráning á slysum sé stór partur af mikilvægi þess að tryggja öryggi, þar sem koma þarf í veg fyrir vanskráningu á slysum og eða tengja saman skráningu slysa hjá lögreglu og sjúkrastofnunum. Að lokum þarf að halda áfram að tryggja hjólreiðamönnum bættar hjólaleiðir ásamt því að auka fræðslu og forvarnir.