Skip to main content

Æfingin skapar meistarann

Anna Heiða Pálsdóttir, aðjunkt við Mála- og menningardeild

Ritlist er tiltölulega ný háskólagrein á Íslandi og reyndar víðar. „Áður fyrr var talið að fólk fæddist með ritlistargáfu og þeir sem ekki bjuggu svo vel að erfðafræðinni hefðu ekki tækifæri. Hvað aðrar listgreinar varðar, t.d. myndlist, sönglist og dans, efast enginn um að leiðbeiningar og þjálfun byggi grundvöllinn að góðri frammistöðu. Í raun gildir það sama um skáldskap,“ segir Anna Heiða Pálsdóttir, aðjunkt í ensku. Handbók eftir hana, Úr neista í nýja bók, ætti því að gagnast öllum þeim sem hyggja á glímuna við hvítu blaðsíðuna.

Kennsla í ritlist er eitt af megináhugamálum Önnu Heiðu og þar sem svo margir Íslendingar hafa áhuga á því að skrifa í einhverju formi ætti bók sem fjallar um mismunandi aðferðir við ritun að vera kærkomin. Hingað til hefur Anna Heiða stuðst við hefti sem nemendur nota til upprifjunar eftir námskeið en telur að efnið í bókarformi komi sér betur, bæði fyrir nemendur og aðra sem langar að skrifa smásögu eða skáldsögu.

„Með aukinni útgáfu höfunda á eigin verkum myndast þörf fyrir góða ritstjórn. Bókin mín getur vonandi gert höfunda að betri ritstjórum á eigin skáldverk og kennt öðrum hvernig hægt er að meta bókmenntir út frá ákveðnum grundvallargildum.“

Anna Heiða Pálsdóttir

Rannsóknarvinna Önnu Heiðu í tengslum við bókina snerist um að kanna helstu ráð sem gefin eru um tækni í ritlist frá höfundum, ritstjórum og öðrum sem koma að þessari grein innanlands og utan. „Með aukinni útgáfu höfunda á eigin verkum myndast þörf fyrir góða ritstjórn. Bókin mín getur vonandi gert höfunda að betri ritstjórum á eigin skáldverk og kennt öðrum hvernig hægt er að meta bókmenntir út frá ákveðnum grundvallargildum,“ segir Anna Heiða.

Efnið er henni ekki ókunnugt enda hefur hún kennt ritlist í 14 ár, bæði í Háskóla Íslands og í Endurmenntun Háskólans, og einnig skrifað og þýtt bækur sjálf. Þótt ógrynni sé til af bókum á ensku um efnið er tilfinnanlegur skortur á bókum á íslensku þar sem dæmi eru tengd við íslenskar bókmenntir. „Hluta af efninu hef ég notað í kennslu minni á síðastliðnum árum og við umsjón lokaritgerða í ritlist, bæði á íslensku og á ensku. Ég hef þurft að leita fanga víða og tel að ritspírur muni hafa ómælt gagn af samantekt ólíkra nálgana í ritlist,“ segir Anna Heiða að lokum.